143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:15]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu sem er mjög þörf um þetta brýna og skemmtilega viðfangsefni sem fjölgun ferðamanna til Íslands er. Það er rétt sem þingmaðurinn nefndi, eins og við vitum öll hefur erlendum ferðamönnum hingað til lands fjölgað umtalsvert á milli ára. Til að setja þetta í samhengi er hægt að nefna að árið 2003 komu hingað tæplega 320 þús. ferðamenn en í fyrra, árið 2013, voru þeir tæplega 800 þúsund. Á tíu árum er þetta gríðarlegur vöxtur sem hefur leitt af sér mikla fjölgun starfa í greininni og miklar gjaldeyristekjur. Reiknað er með að tæplega 18 þús. manns hafi starfað í ferðaþjónustunni árið 2012.

Vandi fylgir vegsemd hverri, eins og segir í máltækinu. Þessu fylgja áskoranir, við þurfum og viljum öll taka vel á móti þeim ferðamönnum sem koma hingað til lands. Viðfangsefnið er kannski þríþætt sem við stöndum frammi fyrir núna. Hv. þingmaður rakti ágætlega frammi fyrir hvaða áskorunum við stöndum á fjölförnum ferðamannastöðum. Ég held að við þurfum ekki að horfa á fréttir mörg kvöld í röð til að sjá ýmis viðfangsefni sem því tengjast. Viðfangsefnið er í raun þríþætt, það að vernda náttúruna, vernda þá staði sem nú teljast fjölsóttir ferðamannastaðir fyrir þeim ágangi sem er og hefur verið. Verkefnið er líka að dreifa álaginu, að fjölga hinum svokölluðu fjölsóttu ferðamannastöðum og dreifa álaginu þannig, en einnig að dreifa álaginu innan ársins, að lengja ferðamannatímabilið. Það hefur tekist ágætlega á undanförnum árum með þannig áherslu í markaðssetningu og síðast en ekki síst er verkefnið það að tryggja öryggi ferðamannanna.

Við sjáum, og það hefur kannski verið einna mest áberandi í vetur, að vegna þess hversu vel Ísland allt árið og markaðssetning á íslenskri ferðaþjónustu utan háannatímabilsins hefur tekist fáum við ný viðfangsefni. Við tökum á móti ferðamönnum á þeim tíma ársins sem við erum ekki vön og þurfum þá að sinna því. Það var ágæt grein hjá hótelhaldara hér í bæ sem hafði yfirskriftina „Ísland allt árið nema þriðjudaga og laugardaga“ af því að það er ekki mokað þá. Úr þessu þurfum við að bæta.

Viðfangsefnið er flókið. Við erum núna, af því að hv. þingmaður spurði, í vinnu við að útfæra hugmyndir um gjaldtöku í þessari grein til að standa straum af kostnaði við það þríþætta verkefni sem ég rakti áðan.

Mín hugmynd og það sem við höfum verið að vinna að er náttúrupassinn. Við höfum tækifæri nú til að fara heildstætt í hann, hafa samstarf milli einkaaðila, opinberra aðila, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög, og þeirra aðila sem stunda þennan atvinnurekstur. Það er það sem unnið er að. Ég vonast til að geta komið með tillögur inn í þingið fljótlega, vonandi í þessum mánuði, alla vega að þær verði kynntar.

Við stöndum frammi fyrir því, eins og ég segi, að viðfangsefnið er brýnt. Við sjáum hugmyndir manna hingað og þangað. Nýjasta dæmið er við Geysi þar sem menn ætla að fara af stað sjálfir.

Ég held að við getum öll verið sammála um að við viljum ekki að ferðamenn sem koma hingað til lands fái þá upplifun af landinu okkar að þeir þurfi að taka upp veskið á öllum fjölsóttum ferðamannastöðum. Þess vegna er það með það að markmiði sem við erum að vinna að útfærslu tillagna í góðu samráði við stóran hóp aðila, í kringum 25 manna hóp. Vonandi tekst okkur að ná lendingu um aðferðir og leiðir sem verða til þess að allir koma með okkur. Það verður þá að vera þannig að menn sjái sér hag í því. Það er ekki verið að skikka einn eða neinn og ég mun kynna þetta nánar innan skamms tíma.

Varðandi Geysi þá hef ég átt samtöl við landeigendur í gegnum þessa (Forseti hringir.) vinnu. Þeir eiga þarna fulltrúa í gegnum landeigendafélagið og það hefur valdið mér vonbrigðum að þeir hafi farið af stað með þessum hætti. Við vitum að (Forseti hringir.) það eru flókin eignaskipti á þessu landi en ég verð að fá að klára það sem ég hef að segja í síðari ræðu.