143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Komið hefur fram að gífurlegur fjöldi ferðamanna kom hingað til lands á síðasta ári. Árið 2020 er reiknað með að fjöldinn geti verið kominn upp í milljón, en ferðamönnum hefur nú fjölgað um 134 þúsund á milli ára. Alls fóru 781 þúsund ferðamenn í gegnum Keflavíkurflugvöll í fyrra. Það liggur í augum uppi hve brýnt það er að byggja upp innviði ferðamannastaðanna vítt og breitt um landið og efla landvörsluna og Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til að standa undir þeim mikla ágangi sem er á náttúru landsins og mun aukast á komandi árum. Það vekur því vissulega furðu að stjórnvöld skeri svo mikið niður sem raun ber vitni í landvörslu og til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða því að það er fyrst og fremst íslensk náttúra sem laðar ferðamenn hingað. Við megum því ekki svelta Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, við verðum að fjármagna sjóðinn eins og var t.d. rætt á síðasta kjörtímabili. Tillögur komu um komugjöld á flugfarseðla og gistináttagjald, sem er auðvitað mjög lágt og þyrfti að hækka.

Ferðaþjónustan sjálf verður líka að leggja eitthvað af mörkum til þessarar uppbyggingar. Þannig væri með góðu móti hægt að hafa hér öflugan Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem mundi mæta aukinni þörf fyrir uppbyggingu á þessu sviði.

Ég tel það einnig vera mikilvægt að byggja upp betri samgöngur og aðgengi að ferðamannastöðum úti um allt land til að létta því álagi og þeim átroðningi sem er á vinsælustu stöðunum hér á suðvesturhorninu. Við verðum að horfa til þess við skipulagningu þessara mála. En náttúra Íslands er sameign okkar allra eins og við vitum og við viljum jafna aðgengi að henni. Við höfnum því allri gjaldtöku inn á einstaka staði. (Forseti hringir.) Það verður að fjármagna uppbygginguna með öðrum hætti en með því að rukka inn á ferðamannastaðina.