143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:42]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessar góðu umræður sem mér finnst hafa verið hér. Ég starfaði sem leiðsögumaður þegar ég var ung, frá svona 1994 fram að aldamótum. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við fórum einhvern tíma að Dettifossi, sem var auglýstur sérstaklega í bæklingum sem við vorum að prenta og gefa út sem aflmesti foss Evrópu, en vegurinn var eiginlega algjörlega ónýtur. Það var mjög erfitt að komast þangað og síðan var það bara heppni ef fólk komst óskaddað að fossinum og til baka. Svo var það leiðin til baka og síðan þurfti að finna salernisaðstöðu sem var ekki fyrir hendi og þá þurfti að stoppa rútuna einhvers staðar þar sem voru hólar og senda fólk eitt og eitt að pissa bak við hól. Þetta gat verið gaman ef það var ekki rigning, en þetta er auðvitað ekki boðlegt.

Ég fékk oft þá tilfinningu að við litum á ferðamenn sem einnota fyrirbæri og þá kannski aðallega þessar aðstæður sem stjórnvöld eiga að skapa. Þeir sem eru í ferðamannaiðnaðinum eru margir að gera mjög góða hluti og margt sem er gert er mjög faglegt og flott.

Ef við ætlum að breyta þessu er það í rauninni á ábyrgð okkar, þingheims og líka stjórnvalda, og við verðum að standa undir þeirri ábyrgð og einhenda okkur í þetta verkefni. Mér finnst eins og pólitíkin sé að flækjast fyrir eðlilegri uppbyggingu innviða og á meðan verða margar náttúruperlur fyrir óbætanlegum skaða.

Við virðumst vera að fara inn í sumarið 2014 þar sem ágangurinn mun ná að skemma landið enn meira.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að einhenda sér í þetta verkefni og þingheim allan til að styðja ráðherra í hennar viðleitni. Ég kalla eftir samvinnu þvert á flokka, förum í þetta verkefni. Ég geri mér grein fyrir að margt hefur gengið á á síðasta kjörtímabili en hér verðum við bara að standa saman. Við styðjum ráðherra ef hún kemur með góð mál inn í þingið til að bæta úr þessu.