143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:44]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka sérstaklega lokaorð hv. málshefjanda. Það er gott að vita af þessu viðhorfi vegna þess að það er akkúrat það sem vakir fyrir mér og þessari ríkisstjórn, að finna leið til framtíðar til að tryggja fjármagn til viðhalds og uppbyggingar á ferðamannastöðum og til að uppfylla þau markmið sem ég fór yfir í fyrri ræðu minni í sátt við þá sem starfa í greininni.

Hv. þm. Róbert Marshall getur alveg gert grín að því og skellt fram einhverjum frösum um að þetta hljóti að vera of flókið viðfangsefni fyrir ráðherra. Þetta er flókið viðfangsefni ef menn ætla að gera þetta almennilega. Ég hef hugsað mér að leggja allt í sölurnar til að reyna að gera það. Ég hef sagt: Jú, þetta er brýnt, þetta er áríðandi, við erum öll sammála um það, en ég ætla ekki að fórna afurðinni fyrir tímasetninguna. Ég vil frekar gefa mér og okkur sem erum að vinna í þessu aðeins lengri tíma og ná þá sátt meðal þeirra sem koma að þessum málum, hvort sem það er ríkið sem eigandi náttúruperlna, landeigendur, sveitarfélög eða aðrir.

Framkvæmdasjóðurinn hefur verið nefndur hér og ég minni á að hann er enn starfandi. Það er ekki eins og það verði ekki veitt úr honum á þessu ári. Framkvæmdasjóðurinn leysir hins vegar ekki þann vanda sem hér er við að etja, t.d. það mál sem hér hefur verið nefnt um Geysi. Jafnvel þótt það hefðu verið 500 milljónir í framkvæmdasjóðnum hefði það ekki leyst þann ágreining eða þær mismunandi skoðanir sem eigendur á Geysissvæðinu, einkaaðilar og ríkið, hafa vegna þess að þar er farið fram á mótframlag. Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni varðandi þau svæði, mörg friðlýst, sem eru í einkaeigu. (Forseti hringir.) Menn sækja ekki í framkvæmdasjóðinn til að byggja þar upp vegna mótframlagsins, á meðan menn fá ekki tekjur af eigninni.

Ég þakka kærlega þessa umræðu (Forseti hringir.) og vona svo sannarlega að við getum unnið í sameiningu að farsælli lausn von bráðar í þessum málum til framtíðar.