143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar -- júní 2013.

285. mál
[15:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að koma inn á þetta mál sem við í fjárlaganefnd erum með til umfjöllunar og við þingmenn þá í framhaldinu. Í framhaldi af máli hv. formanns fjárlaganefndar er ástæða til að benda á að núverandi ríkisstjórn tók líka ákvarðanir sem fólu í sér minni skattheimtu þannig að sá hallarekstur sem stofnanir og fleiri sitja uppi með er líka til kominn vegna ákvarðana sem núverandi ríkisstjórn hefur tekið.

Það hlýtur að vera eitt af markmiðum með skýrslugerð af þessu tagi að við þingmenn getum betur áttað okkur á stjórn og meðferð opinberra fjármuna og hvernig við getum lagfært það sem betur má fara. Því eru það vonbrigði að nú, eins og oft áður, eru afar fáir þingmenn að hlusta eða taka þátt í umræðunni, a.m.k. svo sýnilegt sé. Þetta er stærsti málaflokkurinn og það sem þetta snýst allt saman um.

Ég ætla að stikla á stóru í því sem Ríkisendurskoðun bendir á og kemur meðal annars fram í áliti okkar og eins í skýrslunni sem hefur ekki breyst mikið, þ.e. janúar–september, þetta álit er janúar–júní. Samkvæmt því sem Ríkisendurskoðun segir eiga ráðuneytin að bera saman áætlun og útgjöld stofnana sem undir þau heyra, ekki sjaldnar en á þriggja mánaða fresti. Ef í ljós kemur að stofnun fer meira en 4% umfram áætlun á ráðuneytið að leita skýringa og sjá til þess að forstöðumaður grípi til viðeigandi aðgerða. Það eru jú ráðherrar sem eiga að bera ábyrgð á rekstri stofnana og að þeim sé hagað í samræmi við fjárlög.

Á þessu hefur verið mikill misbrestur og þá er sama í sjálfu sér hver hefur setið við stjórnvölinn, því miður. Því ber að fagna að á síðasta kjörtímabili ákvað hv. fjárlaganefnd að fylgja eftir skýrslum Ríkisendurskoðunar vegna framkvæmdar fjárlaga og með því vill nefndin vekja þingmenn og aðra til umhugsunar um hvernig hægt sé að bæta fjárlagavinnuna og styðja við stofnanir ríkisins til að þær geti betur staðið við sínar áætlanir. Núverandi fjárlaganefnd hefur ákveðið að fylgja þessu vel eftir og við erum að vinna um þessar mundir við yfirferð á reikningum ríkisins 2011 og 2012. Það er heilmikil yfirferð og við höfum fengið til okkar marga gesti til að skýra betur stöðuna. Það nefndarálit lítur væntanlega fljótlega dagsins ljós.

Eins og kemur fram í því áliti sem við fjöllum nú um eru helstu athugasemdir Ríkisendurskoðunar þær að auka þurfi aga í fjárlagaframkvæmd og stöðva ítrekaðan hallarekstur, einnig hvernig vinna skuli á uppsöfnuðum halla stofnana sem náð hafa að laga rekstur sinn og svo að bæta áætlanagerð vegna nokkurra fjárlagaliða.

Þrátt fyrir að landbúnaðarháskólinn sé tekinn sérstaklega fyrir í þessu áliti fjárlaganefndar eiga sömu athugasemdir víða við og það er ráðherra að taka ákvörðun um hvernig fara skuli með langvarandi uppsafnaðan halla sem skiptir jafnvel tugum milljóna á stofnun. Eins og hér var rakið má taka dæmi um ýmsa framhaldsskóla, heilbrigðisstofnanir, t.d. Landspítalann þar sem hallinn var áætlaður 1,5 milljarðar á síðasta ári og við þurfum að fá nánari skýringar á því og hvað á við það að gera. Einnig eru þar Vegagerðin og lögreglan þannig að margir hafa búið við skerðingu. Kannski hefur þessum stofnunum eðli málsins samkvæmt eftir hrun að einhverju leyti gengið illa að sníða sér stakk eftir vexti og við því þarf að bregðast.

Það þarf líka að ákveða hvort á að fella niður hallann eða krefja stofnanirnar um endurgreiðslu. Það er vert að geta þess í þessu samhengi að ekki hafa allar stofnanir fengið sams konar meðferð. Sumar hafa fengið endurgreitt samviskusamlega með auknu aðhaldi eða skertri starfsemi en aðrar stofnanir hafa fengið hallann felldan niður. Við gerð fjárlaga var til dæmis aukið fjármagn sett í nokkrar stofnanir á sama tíma og ákveðið var að fella niður hluta þess skuldahala sem þær höfðu en til annarra var aukið við fjármagn en hallinn skilinn eftir. Hér erum við að tala um stórar fjárhæðir og það segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar að ætlast sé til að halli sé greiddur upp með fjárveitingum strax á næsta fjárhagsári eða í sérstökum tilfellum á lengri tíma enda sé þá um það samkomulag milli stofnunar, fagráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Það kemur manni fyrir sjónir eins og fagráðuneytið sé ekki alltaf að tala við hið alltumlykjandi ráðuneyti.

Á sama tíma erum við að fjalla um afnám markaðra tekna í fjárlaganefnd. Markaðar tekjur margra þeirra stofnana sem Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við eru að einhverju leyti ásteytingarsteinn ráðuneytis og stofnunar um tilkomna skuld, með hvaða hætti beri að endurgreiða eða hvort yfirleitt beri að endurgreiða. Markaðar tekjur verða ekki afnumdar nema til komi veruleg útgjöld ríkisins til að jafna hallann á þessum stofnunum.

Þrátt fyrir umfangsmikla vinnu nefnda og vinnuhópa hafa aðgerðir til úrbóta ýmist ekki komist í framkvæmd eða hafa einungis verið skammtímalausnir eins og segir í álitinu og það er miður. Það er miður að framkvæmdarvaldið taki ekki mark á því sem þingnefndir setja fram til úrbóta. Hér fjallaði formaður fjárlaganefndar ágætlega um ábyrgð forstöðumanna og ekki síst þarf að koma til ábyrgð ráðherra í að fylgja sínum stofnunum eftir. Ríkisendurskoðun bendir á að það þurfi að bæta framkvæmd fjárlaga til að fylgja þessum ábendingum eftir en ekki síst að það þurfi viðhorfsbreytingu til að einhver árangur náist. Það er kannski hinn stóri þröskuldur í sjálfu sér, viðhorfsbreyting til þess hvernig fjárlög hafa verið framkvæmd til áratuga. Það hefur einhvern veginn þótt sjálfsagt að fara fram úr áætlunum og því yrði einhvern veginn reddað. Auðvitað á það ekki við um alla frekar en nokkuð annað.

Hér kemur líka fram að undanfarin ár hefur verið unnið að nýju frumvarpi til laga um opinber fjármál. Við bíðum eftir því að hæstv. ráðherra mæli fyrir því. Þar er meðal annars tekið til yfirstjórnar og ábyrgðar ráðherra og forstöðumanna, eins og ég nefndi, á framkvæmd og skiptingu á millifærslu fjárheimilda, áætlunargerðar, mats á útgjaldahorfum og eftirlits innan ársins. Þetta er vissulega til bóta á því sem við höfum þó séð fram til þessa, við höfum fengið kynningu á þessu frumvarpi, en það breytir því ekki að það er ýmislegt sem bendir til þess að reglugerðin sem við höfum utan um framkvæmd fjárlaga hafi ekki dugað til þess að tryggja sæmilegan árangur í kringum fjármál ríkisins. Þó að hér verði sett fram og samþykkt frumvarp er alls ekki víst að það dugi eitt og sér. Því held ég að þetta snúist fyrst og fremst um viðhorfsbreytingu gagnvart því hvernig hlutirnir eru framkvæmdir.

Um það að bæta áætlanagerð segir á bls. 9 í Framkvæmd fjárlaga, reyndar janúar–september 2013, frá Ríkisendurskoðun, með leyfi forseta:

„Fjárheimildastaða margra þessara liða, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð, hefur að jafnaði verið felld niður með lokafjárlögum. Það þýðir í reynd að fjárlög eru ekki látin stýra útgjöldum þeirra heldur eru þau eins konar spá um kostnað við slíka útgjaldaliði. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að skoða hvort hægt er að bæta áætlanagerð vegna slíkra fjárlagaliða í tengslum við fjárlagagerðina en sumir þeirra hafa ár eftir ár reynst kostnaðarsamari en fjárlög gerðu ráð fyrir.“

Það sem ég er að tala um með viðhorfsbreytingu er að auðvitað er ekki hægt að áætla í botn fyrir öllu, við vitum það, og þess vegna á að vera til fyrir ófyrirséðum kostnaði að einhverju leyti. Það sem er alvarlegt í þessu er að fjárlögin eru ekki látin ráða. Það er vegna þess sem ég sagði áðan um að við þyrftum viðhorfsbreytingu, að það sé ekki sjálfsagt að fara fram úr fjárlögum.

Fjárlaganefnd hefur einsett sér að fylgja því eftir að ráðuneytin leggi fram raunhæfar tillögur til úrbóta og einnig að fylgja eftir framkvæmd fjárlaga núna 2014, m.a. eftir veikleikalista fjármála- og efnahagsráðuneytisins gagnvart öðrum ráðuneytum. Þessi veikleikalisti hefur því miður ekki enn komið fram en við ætluðum að kalla eftir honum í febrúar, eins og kemur fram í álitinu okkar, þannig að við gætum farið ofan í þessi mál og séð hvernig stofnanir taka á þeim niðurskurði sem þeim var fyrirskipaður.

Í lokin er bara ástæða til að rifja upp að sá góði árangur sem náðist á síðasta kjörtímabili þrátt fyrir allt í niðurgreiðslu skulda er undanfari þess að nú getum við stefnt að hallalausum ríkisrekstri. Og það er vel.