143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar -- júní 2013.

285. mál
[15:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svar hans. Ég fagna því sérstaklega að komið sé fram frumvarp sem tekur á vandamálinu með hinar mörkuðu tekjur. Ég lýsi hins vegar yfir vonbrigðum mínum að minni hlutinn skuli ekki hafa staðið við þau orð og þann skilning sem ég lagði í vilja meiri hluta nefndarinnar á síðasta kjörtímabili og hafi ekki staðið með meiri hlutanum vegna þess að það skiptir gríðarlega miklu máli að Alþingi í heild sinni taki á fjármálastöðugleika ríkissjóðs og að menn séu nokkuð samstilltir í því.

Kannski var það þannig eftir að áfallið dundi yfir og kreppan skall á að menn sáu í hendi sér að það varð að taka einhver skref til þess að auka aga á ríkisbúskapnum. En mér þykir mjög miður að heyra að svo sé ekki.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í annað atriði af því að hann minntist á Svíþjóð og kom aðeins inn á það að Svíar hafa mörg og sterk mælitæki til þess að fara yfir hagvöxt og verðbólgu og alla þá þætti sem hafa áhrif á það hversu miklum peningum er hægt að verja til uppbyggingar samfélagsins úr ríkissjóði á hverju ári. Stendur til að styrkja það kerfi sem við Íslendingar höfum? Við höfum deilt um það í gegnum árin hvort hægt sé að treysta þeim áætlunum sem gerðar hafa verið, m.a. hjá Hagstofu Íslands og greiningardeildir bankanna hafa líka gert slíkar áætlanir. Ég veit að Svíar ganga það langt að þeir leita ekki bara til sérfræðinga úr háskólunum í Uppsölum og Lundi í Svíþjóð heldur til annarra landa, til sérfræðinga í Kaupmannahafnarháskóla, Óslóarháskóla og háskólanum í Helsinki. Það væri gaman að heyra aðeins frá þingmanninum hvernig menn hugsa sér að slíkt (Forseti hringir.) eftirlit verði.