143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar -- júní 2013.

285. mál
[15:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, það voru gríðarleg vonbrigði að stjórnarandstöðuflokkarnir skyldu ekki vera með á frumvarpi um mörkuðu tekjurnar. Ég tek það náttúrlega svolítið á mig, ég leiddi þetta mál í hv. fjárlaganefnd og var 1. framsögumaður. Ég leitaðist eftir, vegna þess að það var vilji fyrir hendi hjá stjórnarandstöðunni, að vinna málið nákvæmlega eins og hv. stjórnarandstaða mundi vilja gera það vegna þess að ég taldi að hv. stjórnarandstaða yrði á málinu og það væri góð samstaða um það. Síðan kemur í ljós að það er ekki. Það getur því vel verið að við náum ekki að gera þetta að lögum. Það skrifast bara á mig, ég taldi að það væri betri leið að fara leið samvinnu og sátta en sit kannski uppi með það að þá verður þetta þarfa mál ekki að lögum. Þeir sem blæða fyrir það, virðulegi forseti, eru almenningur í landinu, það er ekkert öðruvísi. Það er ömurlegt að þurfa að sitja uppi með það.

Það kemur væntanlega fram á næstunni frumvarp um opinber fjármál frá hæstv. fjármálaráðherra. Það er mikið af hlutum til bóta þar. Hv. þingmaður nefndi einmitt ýmislegt hvað varðar eftirlitið og nefndi að í þessu stóra landi, Svíþjóð, eru málin þannig að þeir telja skynsamlegt að leita að eftirliti, skipulegu eftirliti, frá öðrum löndum. Það finnst mér skynsamlegt. Við erum náttúrlega fá og erum mikið að karpa, við eigum oft erfitt með að greina milli einstaklinga og málefna og tengslin eru mikil, þannig að ég held að það geti verið skynsamlegt að fá til okkar aðila annars staðar frá. Og það er mín skoðun að annaðhvort eigum við að líta aftur til Svíþjóðar til þess að læra af þeim eða — og þess þá heldur og það er verið að vinna að því eftir því sem ég best veit — að fá aðila hingað frá Svíþjóð til þess að að fara yfir þessi mál. Það er engin ástæða(Forseti hringir.) til að finna upp hjólið. Við eigum að aðlaga það sem (Forseti hringir.) hefur gengið vel annars staðar að því sem við höfum hér á landi.