143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[15:59]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er kominn í ræðustól Alþingis til þess að ræða eitt mikilvægasta mál sem ég hef flutt og eitt mikilvægasta málefni sem snýr að samgöngum í landinu. Hvar sem maður er staddur úti á landi eða jafnvel í höfuðborginni eru flestir sammála um að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er stærsta samgöngumannvirki og stærsta samgöngumál allra landsmanna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum í huga orðin „allra landsmanna“. Þetta er málefni sem snýr að öllum landsmönnum.

Í skoðanakönnun hafa 82% allra landsmanna lýst yfir vilja til þess að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, 73% Reykvíkinga. Liðlega 70 þús. einstaklingar skrifuðu undir sérstaka áskorun til borgaryfirvalda og Alþingis um óskerta flugstarfsemi til framtíðar í Vatnsmýri. Bent er á mörg tilvik, ef flugvöllurinn fer, sem geta skert aðgengi sjúkra og annarra farþega að þjónustu og þær afleiðingar sem brotthvarf flugvallarins getur haft.

Þrátt fyrir þessa staðreynd hafa borgaryfirvöld stigið fram og lýst því yfir að vilji þeirra til þess að flugvöllurinn hverfi úr Vatnsmýrinni hafi ekki breyst. Borgarstjóri nefndi það í viðtali við Ríkisútvarpið þegar hann var spurður út í undirskriftasöfnunina og Reykjavíkurflugvöll. Þá sagði hann orðrétt: „Síðan má ekki gleyma því að réttur sveitarfélaga, réttur Reykjavíkur til þess að skipuleggja sitt land er tryggður í stjórnarskrá Íslands.“ Með öðrum orðum, þrátt fyrir vilja meiri hluta landsmanna samkvæmt skoðanakönnun, þrátt fyrir eina stærstu og mestu undirskriftasöfnun sem farið hefur verið í á Íslandi sé þetta einkamál Reykvíkinga eða borgaryfirvalda í Reykjavík.

Við skulum samt hafa í huga að þann rétt sem nefndur er í stjórnarskránni má takmarka með almennum lögum. Þar segir að sveitarfélög megi ráða sínum málefnum sjálf eftir því sem lög ákveða. Sú vernd sem tiltekin er í stjórnarskrá er ekki stærri og merkilegri en svo að við á Alþingi getum takmarkað hana með almennum lögum.

Þeir sem vilja að flugvöllurinn fari burt tala mikið um sátt, nauðsynlegt sé að ná einhvers konar sátt í málinu. Hingað til virðist mér því miður að sáttin sé eingöngu í aðra áttina, að þeir sem eru ekki sammála þeim eigi með einum eða öðrum hætti að lúta þeirra vilja og þar með sé sátt samkvæmt þeirra skilgreiningu komin á.

Boðaður var samráðsvettvangur við bæjaryfirvöld á Akureyri, að nú skyldi heldur betur talað saman. Akureyringar hafa ítrekað kallað eftir slíkum samráðsvettvangi. Af einhverjum ástæðum hefur aldrei verið til hans boðað þrátt fyrir ítrekaðar óskir þess efnis. Þannig er sáttin.

Nú hef ég lýst því yfir í stuttu máli að eitt stærsta hagsmunamál landsins, sérstaklega landsbyggðarinnar, að sjálfsögðu, sé í hnút. Það virðist ekki vera hægt að leysa þann hnút. Menn hafa reynt að fresta lokun norður/suður-brautarinnar. Það var út af fyrir sig ágætt, en í staðinn var samþykkt að allur flugvöllurinn mundi fara 2022. Það lá líka fyrir eins og Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, sagði í viðtali að ef norður/suður-flugbrautinni yrði lokað og leggja ætti niður aðra af aðalflugbrautum vallarins þá yrði áætlunarflugi í Vatnsmýrinni sjálfhætt. Ég held að það sé rétt.

Af hverju stöndum við frammi fyrir þessu vandamáli? Af einni ástæðu, það er vegna þess að borgaryfirvöld í Reykjavík líta svo á að þetta sé þeirra einkamál. Það mátti lesa úr svari borgarstjóra þegar hann fullyrti að skipulagsvaldið væri hjá Reykvíkingum þrátt fyrir undirskriftasöfnun um 70 þús. Íslendinga.

Fram hafa komið tillögur um að ákvörðun verði tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég styð þá tillögu. Ég held að hún sé góð. En hvernig yrði með þá þjóðaratkvæðagreiðslu ef borgaryfirvöld mundu virða hana að vettugi og vísa aftur í þá vernd sem kemur fram í stjórnarskránni? Ekki mikið, því miður.

Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp, virðulegi forseti, þar sem ég legg til að skipulagsvald yfir Reykjavíkurflugvelli verði einfaldlega í höndum Alþingis þannig að það verði lýðræðislegra kjörinna fulltrúa allrar þjóðarinnar að taka ákvörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ég held að það sé eðlilegt.

Ef við berum Reykjavíkurflugvöll saman við Keflavíkurflugvöll, sem ég tel að séu sambærilegir flugvellir, jafn mikilvægir þótt annar þeirra gegni að mestu leyti millilandaflugi, þá er skipulagsvaldið þar ekki í höndum sveitarstjórnarfulltrúa Reykjanesbæjar, að sjálfsögðu ekki. Það er ríkisins að hlutast til um hvernig skipulagsvaldið er.

Það má hafa mörg stór orð um hversu stórfenglegt fyrirbæri sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er, en hugsum nú aðeins málið. Getur verið að sá réttur sé nú þegar takmarkaður á ýmsan hátt í lögum? Það þarf ekki að leita lengi. Ég er búinn að nefna hvernig farið er með Keflavíkurflugvöll. Hvernig er með Alþingi og Þingvelli? Er það hlutverk sveitarstjórnarmanna þar að ákveða hvernig við förum með þennan dýrmæta stað, þjóðareign allra landsmanna? Nei, Alþingi hefur skipað nefnd, Þingvallanefnd, til þess að hlutast til um þau málefni, að sjálfsögðu í góðri sátt við allt og alla, m.a. sveitarstjórnarfulltrúa.

Ég vil taka það sérstaklega fram að það er mjög skýrt kveðið á um það í frumvarpi mínu að það verði að sjálfsögðu borið undir sveitarstjórnarmenn hvernig fara eigi með þetta skipulagsvald en endanlegt ákvörðunarvald sé að sjálfsögðu í höndum Alþingis, lýðræðislega kjörinna fulltrúa allrar þjóðarinnar. Það er mín skoðun.

Við takmörkum vald sveitarstjórnarfulltrúa á ýmsan hátt í náttúruverndarlögum. Ef einhverjum dytti í hug að reisa olíuhreinsunarstöð til dæmis í Arnarfirði, væri það þá algjörlega á forræði þeirra sveitarstjórnarfulltrúa sem þar réðu hvort af því yrði? Mundu ekki þingmenn úr hvaða flokki sem er vilja hafa eitthvað um það að segja hvort sú stöð ætti að verða að veruleika? Ég nefni það sem dæmi.

Innanríkisráðherra hefur boðað, reyndar frestað sem ég tel ágætt, að lækka viðmiðunarmörk útsvars, þ.e. gefa sveitarfélögum kost á því að hafa það lægra en hið svokallaða viðmið. Af hverju höfum við svona viðmið í almennum lögum? Af hverju erum við að takmarka valdið? Vegna þess að það er ýmislegt sem á að vera á færi allra landsmanna eða kjörinna fulltrúa þeirra að hlutast til um. Ég veit vel að þetta er mjög viðkvæmt mál. Margir stukku upp á nef sér þegar ég nefndi að þetta væri eðlilegra. Ég fékk að heyra að ég vildi taka allt skipulagsvald af Reykvíkingum. Það er ekki ætlunin. Á skilgreindu svæði tel ég eðlilegt að það sé í höndum okkar á Alþingi að ákveða framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Mig langar aðeins að benda hér á nokkrar staðreyndir. Flestar þeirra er að finna á síðunni lending.is. Þar er málstaður þeirra sem vilja berjast fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni helst tilgreindur. Þar er bent á að um 600–700 sjúkraflug komi árlega til Reykjavíkur með sjúklinga, margir fari beint inn á skurðarborðið og eigi fluginu lífið að launa. Þar er líka bent á að Reykjavíkurflugvöllur tryggi öryggi landsins í heild. Þaðan má flytja lækna, lögreglu, sérsveit, björgunaraðila og búnað, fólk og fleira fyrirvaralaust hvert á land sem er. Þar er bent á að vegna breytilegra vinda og landslags sé flugvöllur í Vatnsmýrinni raunhæfasti og öruggasti kosturinn í flugvallarmálum höfuðborgarinnar, um það séu allir sérfræðingar sammála. Þar er nefnt að vegna áætlunarflugs í Vatnsmýri geti Íslendingar stundað nám þvert á landshluta, byggt upp atvinnulíf og sótt verslun og þjónustu til borgar og lands. Fyrirtæki á Austfjörðum geti ákveðið klukkan átta að senda mann á fund í Reykjavík í hádeginu og til baka fyrir kvöldmat. Bent er á að án flugvallarins sé samtenging við atvinnulífið rofin. Höfuðstöðvar varðandi björgun á sjó og landi séu stutt frá. Í neyðartilvikum sé hægt að bregðast skjótt við og senda neyðarbúnað og sérfræðinga hvert á land sem er. Stutt frá Vatnsmýri séu höfuðstöðvar slökkviliðs og sjúkrahús og fleira. Viðbragðstími sé því með allra besta móti. Sjúkrahúsið sé skammt frá flugbrautinni. Þyrlur með slasaða sjúklinga megi engan tíma missa. Staðsetning vallarins rétt við sjúkrahús skipti sköpum fyrir öryggi sjófarenda. Flugvöllurinn sé nauðsynlegur í blindflugi. Í slæmum veðurskilyrðum geti þyrlur ekki lent við sjúkrahúsin og treyst á aðflugsbúnað Reykjavíkurflugvallar. Flugvöllurinn sé því lykilatriði í óskyldri þjónustu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.

Störf mundu glatast ef völlurinn færi úr Vatnsmýrinni. Bent er á að við flugvöllinn starfi mikill fjöldi fólks við flug, viðhald, flugstjórn, afgreiðslu, kennslu og svo mætti lengi telja, störf í flugi séu góð og krefjist menntunar og reynslu. Því miður stendur til að flugnám verði fært af flugvellinum. Ég held að það hafi verið röng ákvörðun. Bent er á mikilvægi flugiðnaðar í Reykjavík. Tekið er fram að hægt sé að senda blóðgjafir með hraði, viðkvæmar vörur og að árlega fari um 700 tonn af vörum um Reykjavíkurflugvöll — það eru 2 tonn á dag allt árið um kring, þessar vörur þoli enga bið, þurfi að komast strax á áfangastað, flogið sé með mikilvæg matvæli vítt og breitt um landið, alla leið til Grænlands. Það auðveldi að tryggja ferskleika.

Bent er á að víða um heim noti ferðamenn lestarkerfi til ferða innan lands, ekkert slíkt sé á Íslandi og flugið komi í þess stað. Flugið sé forsenda fyrir afskekktar byggðir landsins til að byggja upp myndarlega ferðaþjónustu sem treystir á flugsamgöngur frá borginni.

Bent er á að flugið sé eitt af hryggjarstykkjum hagkerfisins, í því felist 9.200 störf, 6,6% af landsframleiðslu. Verðmætasköpun hvers starfsmanns í flugþjónustu á Íslandi sé 16 millj. kr. Það sé undirstaða fjárfestinga. Það er líka bent á að framlag flugrekstrar til landsframleiðslu sé hærra en í Noregi og Svíþjóð.

Það er minni mengun með auknu flugi, minni eldsneytisneysla, minni slysahætta, fegurra umhverfi, minna vegslit.

Ég hef lesið hér upp fjölmörg rök fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Skipuð hefur verið nefnd sem á að finna flugvellinum stað á höfuðborgarsvæðinu. Að vissu leyti er það undarlegt vegna þess að eini raunhæfi kosturinn er jú í Vatnsmýrinni, ekki satt? Einhverjir hafa nefnt Hólmsheiði, að hægt sé að leggja flugvöll á Hólmsheiði. Sú hugmynd er lífseig þrátt fyrir að löngu sé búið að sýna fram á að það sé með öllu óraunhæfur kostur. Bent hefur verið á að nothæfisstuðull Hólmsheiðarvallar yrði um 92,8% sem mundi þýða að flugvöllurinn yrði lokaður um 28 daga á ári. Það er grafalvarlegt mál. Það þarf ekki að útskýra það sérstaklega, held ég, fyrir þingmönnum. Vegalengdin frá Hólmsheiðarvelli að Landspítalanum yrði 17 kílómetrar á móti 1,5 kílómetrum. Það er rúmlega tíu sinnum lengri leið. Sjúkravélar gætu ekki lent 28 daga á ári og yrðu þá að fljúga til Keflavíkur eða til baka. Forgangsakstur sjúkrabíla hefði þar ekkert að segja. Hólmsheiði er í 130 metra hæð yfir sjó. Þegar lágskýjað væri yfir borginni yrði völlur á Hólmsheiði á kafi í skýjum. Flugvélar í blindflugi verða að sjá brautina í að lágmarki 60 metra hæð yfir braut, en það er ógerlegt ef brautin er hulin skýjum. Blindaðflug úr norðurátt yrði ófært vegna landslags. Þriðju gráðu aðflugshalli sem hefðbundinn er í blindflugi liggur í gegnum Esju- og Skálafellsfjallgarðinn. Í rauninni yrði um ónothæfan varaflugvöll að ræða vegna þess að lágur nýtingarstuðull og takmarkað blindflug mundi valda því að flugfélög gætu ekki nýtt Hólmsheiði sem varaflugvöll. Hólmsheiðarvöllur mundi ekki standast kröfur — þetta er mikilvægt atriði — vegna lágmarksnýtingarstuðuls og yrði því t.d. ekki gildur alþjóðlegur varaflugvöllur. Völlurinn er uppi á heiði í því veðri sem þar má vænta. Verulegur munur er á veðri við sjávarmál og á heiðum. Völlurinn yrði oft lokaður vegna hálku og íss á brautum þar sem lægri meðalhiti er á Hólmsheiði en í Vatnsmýri.

Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt að fara yfir allar þær röksemdafærslur sem mikill meiri hluti allra landsmanna virðist taka undir. Skoðanakannanir sýna fram á 82% vilja völlinn á sínum stað, 73% bara í Reykjavík. Stærsta undirskriftasöfnun þjóðarinnar snýst um að flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni. Hvað var að? Af hverju kemur þetta mál jafn oft upp á yfirborðið og raun ber vitni? Jú, vegna þess að borgaryfirvöld telja sig, þrátt fyrir þetta, hafa ein eitthvað um það að segja hvort flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni eða fari.

Ég legg því fram frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli. Að öðru leyti en mælt er fyrir um í lögum þessum gilda ákvæði skipulagslaga, nr. 123/ 2010, og laga um mannvirki, nr. 160/2010, um framkvæmd laganna eftir því sem við getur átt. Markmið laganna er að tryggja ábyrgð Alþingis á gerð skipulagsáætlana og þátttöku í veitingu framkvæmdaleyfa og byggingarleyfa á Reykjavíkurflugvelli.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

Í hinni þéttbýlu miðborg Reykjavíkur hafa á liðnum árum risið álitamál um fyrirkomulag skipulags og mannvirkjagerðar á Reykjavíkurflugvelli. Við úrlausn slíkra mála er ljóst að ekki fara alltaf saman hagsmunir Alþingis, Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Þótt Reykjavíkurflugvöllur sé staðsettur í miðborg Reykjavíkur er hann eftir sem áður flugvöllur þjóðarinnar allrar. Til þess stendur pólitískur vilji að Alþingi hafi áhrif á skipulag og mannvirkjagerð á Reykjavíkurflugvelli. Með frumvarpi þessu er að því stefnt að slík áhrif verði virk en um leið sé gætt að því að Reykjavíkurborg, sem fer með hið lögbundna skipulagsvald Reykjavíkur, sé jafnsett þinginu við mótun og gerð skipulags á svæðinu.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, fer ráðherra með yfirstjórn skipulagsmála samkvæmt lögunum og Skipulagsstofnun er ráðherra til aðstoðar, samanber 4. gr. laganna. Sveitarstjórnir annast hins vegar gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana, samanber 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Þannig bera sveitarstjórnir ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið, samanber 2. mgr. 29. gr., og þær bera jafnframt ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, samanber 1. mgr. 38. gr. Í tilviki deiliskipulags heyrir það undir sveitarstjórnir að samþykkja það endanlega og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, samanber 40.–43. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórnir hafa því víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags, samanber hæstaréttardóm frá 7. febrúar 2013. Skipulagsáætlanir þeirra verða hins vegar að vera í innbyrðis samræmi og mega ekki vera í andstöðu við skipulagslög.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. mannvirkjalaga, nr. 160/2010, fer ráðherra með yfirstjórn mannvirkjamála samkvæmt lögunum og Mannvirkjastofnun er ráðherra til aðstoðar, samanber 5. gr. laganna.

Skipulags- og mannvirkjavald sveitarstjórna er hins vegar ekki takmarkalaust þar sem hægt er að takmarka slíkt vald með lagasetningu. Þannig er kveðið á um það í 2. mgr. 3. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 62. gr. mannvirkjalaga að ráðherra er fer með málefni varnar- og öryggissvæða fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á varnar- og öryggissvæðum eins og þau eru skilgreind í varnarmálalögum, nr. 34/2008, samanber og lög nr. 110/1951 og lög nr. 176/2006. Í 8. gr. laga nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., er mælt fyrir um að ráðherra skipi sex menn í skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og sér sú nefnd um að afgreiða aðal- og deiliskipulag fyrir flugvallarsvæðið. Þá er í 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga mælt fyrir um að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar vegna mannvirkja á flugvallarsvæði Keflavíkurflugvallar. Samkvæmt þessu er ljóst að skipulagsvald flugvallarsvæðisins er í höndum skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar sem er einnig umsagnaraðili í þeim tilvikum þegar reisa á mannvirki á svæðinu. Þá má nefna að óheimilt er að gera nokkurt jarðrask eða reisa mannvirki innan þjóðgarðsins á Þingvöllum nema að fengnu samþykki Þingvallanefndar, samanber 5. gr. laga nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þingvallanefnd fer því með mannvirkjavald innan marka þjóðgarðsins.

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að rekja málið frekar, frumvarpið er nokkuð ítarlegt. Ég vona hins vegar að það fari til umhverfis- og samgöngunefndar og að allir þingmenn velti fyrir sér og spyrji sig hvort það sé ekki eðlilegra fyrirkomulag að það sé Alþingis að hlutast til um skipulag á Reykjavíkurflugvelli og ákveða þar með framtíð Reykjavíkurflugvallar eins og á við um Keflavíkurflugvöll, og hvort menn séu ekki sammála um það að fulltrúar og þingmenn Reykjavíkurborgar og þingmenn landsbyggðarinnar geti rætt í rólegheitum og vonandi á málefnalegan hátt hvort flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að hann eigi að vera, eins og stjórnarsáttmálinn segir til um mjög skýrum orðum, í nálægð við helstu stjórnsýslustofnanir landsins. Eini staðurinn sem uppfyllir það skilyrði sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum er Vatnsmýrin í Reykjavík.

Þar sem tími minn er senn á þrotum vonast ég til, eins og ég hef sagt hér áður, að frumvarpið fái eðlilega umfjöllun og að þetta stóra hagsmunamál fyrir allt landið, ekki bara Reykvíkinga heldur landsmenn alla, fái málefnalega umræðu á þinginu og komist fyrr en síðar til atkvæða og verði vonandi samþykkt sem lög frá Alþingi.