143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[16:26]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er kannski svolítið á skjön að nefna Keflavíkurflugvöll sem sérstakt dæmi um skipulagsvald, reyndar ekki Alþingis heldur ráðherra, vegna þess að Keflavíkurflugvöllur var lagður sem herflugvöllur og um hann gegndi sérstöku máli sem varnarsvæði á vegum hersins. Svo þegar Bandaríkjamenn ákváðu að flytja herlið sitt þaðan, þann 15. mars 2006, varð að gera sérstakar ráðstafanir með flugvöllinn. Það er líka um þann flugvöll að segja að hann er ekki inni í neinu einu sveitarfélagi heldur eru þau þrjú eða fjögur sem eiga land að honum. Það er vant að sjá að til dæmis Sandgerði, sem ég hygg að sé það sveitarfélag sem hefur mest um flugvöllinn að segja, ráði við eða að því sé ætlandi, að hægt sé að krefjast þess af sveitarfélaginu í Sandgerði, sem ég man ekki í svipinn hvað heitir nákvæmlega, að það sjái um þetta mál.

Á hinn bóginn eru dæmi um að skipulagsvaldi sveitarfélaga sé deilt til Alþingis, nýleg dæmi sem við höfum farið í gegnum á síðustu þingum. Mig langar að spyrja áhugamanninn, hv. þingmann, um að taka skipulagsvaldið af Reykjavík og færa það til Alþingis, hvort hann sé að minnsta kosti sáttur við þá deilingu eða skerðingu, eða hvað menn kalla það, á skipulagsvaldi sveitarfélaga sem hefur orðið í lögunum um landsskipulag, í skipulagslögunum, í lögunum um rammaáætlun og í lögunum — því að það eru lög — um náttúruvernd, bara áður en við byrjum að ræða þetta. Er hann sáttur við þær breytingar sem þarna hafa orðið og það skipulagsvald sem Alþingi (Forseti hringir.) hefur í raun og veru tekið til sín frá sveitarfélögunum í þessum þremur lagabálkum?