143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrirspurn hans. Mér þykir leitt að hann skyldi ekki hafa svarað þeirri spurningu minni, af því honum gafst svo sannarlega tækifæri til þess, hvort hann hafi stutt (Gripið fram í.) frumvarp hv. þm. Ástu Ragnheiðar. Mér fannst ég knúinn til þess að svara eða alla vega hafa skoðun og kommentera á umræðuna um Keflavíkurflugvöll vegna þess að ég er ósammála hv. þingmanni að það sé algjörlega óskylt mál og að flugvellirnir tengist ekki eða staða þeirra eða skipulag. Ég held einmitt að báðir flugvellirnir séu mikilsverðir. Það varðar almannahagsmuni hvort þeir eru þar sem þeir eru eða ekki. Í hvorugu tilvikinu tel ég að skipulagsvaldið eigi að vera þar.

Til þess að svara spurningu hv. þingmanns nefndi ég það í ræðu minni að eðlilegt væri á margan hátt að takmarka skipulagsvald sveitarfélaga á einn eða annan hátt. Ég held að breið samstaða sé um það að mestu leyti. Við höfum reyndar tekið þá umræðu hér, eins og við tókum um landsskipulag þegar það var mest til umræðu á árunum 2007–2009. Þá átti ég sæti í umhverfisnefnd og hv. þm. Helgi Hjörvar fór með nefndina til Skotlands til þess að kynna sér hvernig Skotar framkvæmdu landsskipulag. Það varð reyndar svolítið endasleppt vegna þess að Skotar virða að sjálfsögðu rétt sveitarfélaga.

Við skulum hafa eitt á hreinu. Þegar ég tala um valdið eigi að vera hjá stjórnvöldum landsins er ég líka, og ég held að við séum sammála um það, að segja að það eigi að sjálfsögðu að taka tillit til skoðana borgarfulltrúa (Forseti hringir.) Reykjavíkur og virða skoðanir þeirra, en (Forseti hringir.) lokaákvörðunin verður að vera hjá kjörnum fulltrúum allra landsmanna.