143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[16:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð kúnstugt mál í raun. Hv. þingmaður gerir hér ágæta grein fyrir afstöðu sinni til þess hvort flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni eða ekki og það er allt saman ágætlega rökstutt með tölum og skýrslum og ýmiss konar upplestri hér úr ræðustól. Sú leið sem hann vill síðan feta að sínu markmiði, sem er að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, er umdeilanleg vegna þess að ýmis grjót eru á leiðinni eða ljón í veginum. Til að mynda segir hann í greinargerðinni að Reykjavíkurflugvöllur sé flugvöllur þjóðarinnar allrar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann skilgreinir flugvöll þjóðarinnar allrar, hvort það eigi við um alla flugvelli í landinu. Er Akureyrarflugvöllur flugvöllur þjóðarinnar allrar, Egilsstaðaflugvöllur, flugvöllurinn á Gjögri o.s.frv.? Hvað er það sem gerir Reykjavíkurflugvöll að flugvelli þjóðarinnar allrar?

Hann segir líka í greinargerð að skipulagsvald Reykjavíkur sé jafnsett þinginu við mótun og gerð skipulags á svæðinu. En þó segir hann í andsvari við hv. þm. Mörð Árnason að lokaákvörðunin sé hér í þinginu. Hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér skipulagsferlana? Erum við að tala um að þingið sé hér með sérstaka skipulagsskrifstofu? Ég sé í frumvarpinu að talað er um einhverja nefnd sem á að halda utan um þetta.

Þetta er afskaplega óhönduglega fram sett og hugsað tel ég vera, virðulegur forseti, vegna þess að það er ákveðin verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga. Og það eru ákveðin verkefni sem sveitarfélögin hafa með höndum sem lúta að skipulagi. Við getum verið sammála því eða ósammála hver niðurstaðan er, en það er þannig og það hefur komið fram í samskiptum Skipulagsstofnunar og Reykjavíkurborgar. Það þarf alltaf að liggja fyrir ákveðin sátt og ákveðin sýn (Forseti hringir.) í samstarfi (Forseti hringir.) bæði þeirra sem fara með landið og viðfangsefnin á svæðinu (Forseti hringir.) og skipulagsyfirvalda. Inngrip (Forseti hringir.) Alþingis er mjög torkennileg nálgun verð ég að segja (Forseti hringir.) miðað við anda skipulagslaga.