143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[16:43]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti von á því að hv. þingmaður mundi koma hér upp og fagna framlagningu þessa frumvarps af því hún sagði og komst svo skemmtilega að orði að hætta væri á því að ríkið eða Alþingi mundi „naga til sín“ atriði sem heyrðu undir sveitarfélögin í landinu og ég held að það sé kannski svipaður rökstuðningur fyrir mínu svari og var fyrir framlagningu frumvarps til náttúruverndarlaga sem hv. þingmaður lagði fram. Ég óttast ekki fordæmi né annað. Ég held bara að við eigum að vera sammála um það að tiltekin atriði, sérstaklega, eigi betur heima á Alþingi en í höndum einstakra sveitarfélaga. Ég nefndi nokkur dæmi áðan í ræðu minni en ætla kannski ekki að vísa í þau beint.

Hv. þingmaður segir að það sé óljóst hvert hlutverk Reykjavíkurborgar er sem höfuðborgar. Ég hélt að það væri nákvæmlega ekki óljóst. Höfuðborgin nýtur þess að t.d. Alþingi er þar. Það er nú ekkert smáræði vegna þess að Alþingi fylgja ýmsar undirstofnanir. Ráðuneytin eru öll staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnsýslan og stjórnsýslustofnanir nánast allar. Landspítali allra landsmanna er í Reykjavík. Hvort skyldi hafa komið fyrst? Jú, það var ákveðið í sátt og samlyndi við alla landsmenn að eðlilegt væri að þessi þjónusta mundi byggjast upp í höfuðborginni og í nálægð við flugvöllinn vegna þess að þar með væri hægt að tryggja aðgengi allra landsmanna.

Svo getum við farið yfir það hér, en höfum kannski ekki tíma til þess núna, þær gríðarlegu tekjur sem Reykjavíkurborg hefur af því að allar þessar stofnanir, ráðuneyti (Forseti hringir.) og hvað sem má nefna séu einmitt í Reykjavík. Eigum við ekki að vera sammála um það að (Forseti hringir.) flugvöllurinn megi vera þar sem hann er og hann tryggi þessa þjónustu við alla landsmenn?