143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[17:31]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur bið ég hv. þm. Höskuld Þórhallsson afsökunar á orðum mínum og skal láta það vera að lýsa upplifun minni á frumvarpinu. En það læðast vissulega að manni efasemdir, af því að nú hefur Alþingi, sem starfar eftir stjórnarskrá sem m.a. tryggir sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna, á allra síðustu árum skilað af sér mjög góðri vinnu og samþykkt í góðri sátt ný og mjög góð lög um sveitarstjórnarstigið á Íslandi og sömuleiðis ný og talsvert mikið breytt lög, svokölluð skipulagslög, sem voru samþykkt 2010 og er mikið vitnað til í frumvarpinu.

Í skipulagslögum þessum er kannski stóra breytingin miklu meira og aukið samráð og samráðsferli alveg frá því að skipulagsvinnan hefst og þangað til hún á endanum er samþykkt og fer síðan til samþykktar hjá Skipulagsstofnun. Sú stofnun getur gert athugasemdir eins og hefur nú komið fram í fréttum að verið er að gera við ákveðin atriði í aðalskipulögum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Hér er verið að taka einn ákveðinn stað, sem er reyndar ekki alveg nógu vel skilgreindur í frumvarpinu að mínu mati, og segja að hann sé mikilvægari en allir aðrir. Þá spyr maður sig: Hvað um aðra staði sem skipta líka miklu máli og jafnvel fyrir þjóðarhag? Hvað um hafnir landsins? Hvað um Landspítalann, hvað um héraðsspítala o.s.frv.?(Forseti hringir.) Ég verð að bæta því við að Keflavíkurflugvöllur nýtur sérstaks skipulagsvalds vegna þess að hann er hernaðarmannvirki, ég er ekki viss um að ég sé sammála því. (Forseti hringir.) En þar fyrir utan finnst manni óþægilegt að upplifa undantekningar.