143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[17:33]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir mjög málefnalega og góða umræðu um þetta mál, við erum ekki sammála um allt eins og gengur. Það var óþarfi hjá hv. þm. Óttari Proppé að biðja mig afsökunar, ég móðgaðist engan veginn. Hann hefur lagt sig allan fram um að vera málefnalegur og heiðarlegur hér á Alþingi og það ber heldur betur að virða. Ég skal reyna slíkt hið sama eftir fremsta megni.

Af því að hv. þingmaður minntist hér á hafnir og Landspítalann þá hefur Hafnasjóður ansi mikið um það að segja og Alþingi hvernig hafnir landsins eru skipulagðar, það er einfaldlega þannig. Sama má segja um Landspítalann. Við erum hér á Alþingi að taka ákvörðun um það hvort byggja eigi stórt hátæknisjúkrahús vegna þess að sjúkrahúsið á jú að sinna öllum landsmönnum. Ég er ósammála því að hér sé verið að taka einhvern einn þátt út en sleppa öðrum, alls ekki. Það sem ég er einfaldlega að segja er að þegar við ræðum um stór og mikilvæg málefni, þó að þau séu staðsett í einu sveitarfélagi, þá getur verið eðlilegra, á grundvelli meginreglu vestrænna lýðræðisþjóða, að sem flestir fái að taka þátt í þeirri ákvarðanatöku. Ég nefndi þjóðaratkvæðagreiðslu, gott og vel, ég styð það, en þetta frumvarp gengur einfaldlega út á það að lýðræðislega kjörnir fulltrúar allrar þjóðarinnar taki endanlega ákvörðun. Ég er ekki að segja að hún eigi að vera svona eða hinsegin, þetta frumvarp snýst ekki um það. Ég notaði hins vegar tækifærið hér áðan til að lýsa minni skoðun á því hvar flugvallarstæðið ætti að vera og reyndi að færa fyrir því rök en það var kannski óþarfi að taka það fram.

Ýmislegt hefur verið sagt um þetta frumvarp og gerð þess, að einhver vandkvæði séu á því og að það gangi ekki upp. Þá vil ég segja eitt. Í 2. gr., sem fjallar um Reykjavíkurflugvöll, var ákveðið, og það var mín ákvörðun, að tilgreina það svæði sem Reykjavíkurflugvöllur telst til, innan girðingar, og er fjallað mjög ítarlega um í greinargerð sem fylgir frumvarpinu, án þess að tiltaka sérstök hnit. Eftir að ég lagði frumvarpið fram hefur mér reyndar verið bent á að þau hnit séu til, en þegar ég leitaði eftir því að fá þau var það vandkvæðum bundið. Það er eiginlega ástæðan fyrir því og ég gerði þá bara ráð fyrir því að gera mætti það mjög nákvæmlega í nefndinni og ég reiknaði með því að flestir mundu nú kannski átta sig á því um hvað ég væri að tala, en það er svæðið innan girðingar þar sem venjulega er talað um Reykjavíkurflugvöll.

Síðan komu hv. þingmenn Mörður Árnason og Ragnheiður Ríkharðsdóttir og ræddu hér um 4. gr., að það sé skrýtið að verið sé að skikka fulltrúa Reykjavíkurborgar til að koma að þessu. Eins og ég sagði hér áðan gengur frumvarpið ekki út á það að hunsa algjörlega vilja og aðkomu Reykjavíkurborgar. Í þessari málsgrein, þessari lagagrein, er einmitt reynt að tryggja að fulltrúar höfuðborgarinnar, þeir sem fara með skipulagsmálin, þeir sem vita mest og best, séu hafðir með í ráðum. Fullyrðingar um að Alþingi eigi þá að greiða laun þeirra finnast mér ekki standast. Nú er til umræðu tillaga um brottfall laga um náttúruvernd. Í þeim lögum er valdsvið sveitarfélaga takmarkað á ýmsan hátt, þar á meðal skipulagsþátturinn. Ég hef hvergi nokkurs staðar heyrt minnst á það að þó að eitthvað af skipulagsvaldinu sé fært yfir á Alþingi þá falli það í hlut þess að greiða laun þessara starfsmanna. Ég held að þetta sé bara eðlilegur hlutur og hafi gengið með ágætum og þessi málsgrein er í raun lögð fram eins og framkvæmdin hefur verið varðandi Keflavíkurflugvöll, þannig að það fari ekkert milli mála að frumvarpið var unnið í samráði við færustu sérfræðinga með hliðsjón af því frumvarpi sem fyrrverandi forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, lagði hér fram. Það frumvarp var unnið með lögfræðingum Alþingis, sem ég veit að eru afar vel að sér í gerð frumvarpa. Ég hef því ekki áhyggjur af því að það sé eitthvað tæknilegs eðlis í þessu frumvarpi sem sé óframkvæmanlegt í reynd.

Ég gat ekki skilið hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur öðruvísi en að skipulagsvaldið væri það heilagt að það ætti 100% heima hjá sveitarfélögunum, hún talaði um þvingaða lagasetningu. Ég held að það sé ekki rétt, ég held að það sé einfaldlega þannig, eins og margir hafa komið inn á í ræðum, að skipulagsvald og valdmörk sveitarfélaga eru takmörkuð með ýmsum hætti. Það er hvorki heilagt né 100% hjá sveitarfélögum og núverandi ríkisstjórn hefur líka lagt fram tillögur þar sem menn eru að sjálfsögðu að seilast inn á valdsvið sveitarfélaga í stórum og mikilvægum málum eins og gengur.

Hv. þingmaður nefndi að hún vildi hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni, við erum sammála um það, gott og vel. Það sem ég er hins vegar að segja og leggja til með frumvarpinu er að við verðum einhvern veginn að tryggja að öll þjóðin komi að þeirri ákvörðun. Ég get ekki betur séð en að borgaryfirvöld í Reykjavík séu, þrátt fyrir yfirlýsingar um samráð og sátt, þrátt fyrir samkomulag sem gert hefur verið við ríkisstjórnina, að vinna í eina átt, og það er að norðaustur/suðvestur-brautin fari um leið og reglunefndin lýkur störfum, og að allur flugvöllurinn fari árið 2022. Þess vegna fagna flestir samkomulaginu á einn eða annan hátt, þó að ég telji að það hafi sem betur fer bjargað norður/suður-brautinni. Síðan verða menn að stíga mjög fljótt þau skref sem tryggja innanlandsflug á Íslandi, það er mín skoðun.

Hv. þm. Mörður Árnason talaði um að í þessu frumvarpi ætti samráðslaust að taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg. Það er ekki rétt heldur. Frumvarpið er sambærilegt frumvarpi sem hv. þm. Mörður Árnason talaði fyrir hér á Alþingi, sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar, og fjallaði um náttúruvernd. Þar kemur lagasetningarvaldið og takmarkar vald sveitarfélaga. Síðan hafa sveitarfélögin að sjálfsögðu umsagnarrétt alveg eins og Reykjavíkurborg hefur núna. Hann sagði svo að það ætti að gera þetta allt í sátt og samlyndi. Það er nákvæmlega eins og í þessu frumvarpi og ég hef margítrekað að að sjálfsögðu á að gera þetta í sátt og samlyndi. En hvað varðar skipulag alls staðar um landið er það jú ráðherra sem hefur lokaákvörðunarvaldið. Hann þarf að staðfesta aðaldeiliskipulag. Þó að menn tali um sátt og samráð næst það ekki alltaf, menn eru ekki endilega alltaf sammála. Þá höfum við hagað reglum okkar þannig að einhver beri hina endanlegu ábyrgð, að það sé ríkið. Það er tilgangurinn með þessu. Það er nákvæmlega enginn munur, það er enginn eðlislægur munur á þeim takmörkunum á skipulagsvaldi sem hér eru lögð til og þeim takmörkunum á skipulagsvaldi sem voru lögð til í lögum um náttúruvernd og áttu að taka gildi 1. apríl 2014.

Hv. þm. Óttarr Proppé sagði hér: Landsbyggðin er ekki eitt og höfuðborgin annað. Mig langar til að taka undir þau orð. Ég er landsbyggðarþingmaður og hv. þm. Mörður Árnason benti á að þingmenn utan af landi þurfi að búa hér í höfuðborginni þó að lögheimili þeirra sé úti á landi. Af hverju skyldi það nú vera? Jú, vegna þess að Alþingi er hér, það er bara þannig. Við getum ekki sótt vinnu að heiman nema þá að fljúga á morgnana og heim á kvöldin, og ég held að menn sjái það í hendi sér að það gengi ekki. En sumir gera það engu að síður og það er mikilvægt að það sé hægt. Þess vegna kem ég aðeins inn á þetta.

Hv. þm. Mörður Árnason ræddi um að þessi sáttmáli væri aðallega rofinn af þingmönnum landsbyggðarinnar. Ég skildi hann að minnsta kosti þannig, ég vona að ég sé ekki ósanngjarn. En ég hef á ferðum mínum um landið aldrei heyrt nokkurn mann tala Reykjavík niður. Höfuðborgin okkar, Reykjavík, er lífæð landsins, það er nú bara þannig. Hún skiptir máli fyrir alla landsmenn og ég hef ekki heyrt nokkurn mann tala hana niður á einn eða annan hátt. Það getur vel verið að Óttarr Proppé hafi heyrt í þeim mönnum en það hef ég ekki, og hlutverk hennar sem höfuðborgar. Hins vegar veit ég að mörgum finnst eins og sáttmálinn um höfuðborgina sé rofinn þegar þeir upplifa það að rödd þeirra eða hagsmunir séu fyrir borð bornir af borgarfulltrúum í höfuðborginni. Þá tilfinningu skil ég mjög vel, sérstaklega þegar kemur að flugvallarmálinu.

Hv. þm. Óttarr Proppé nefnir líka að samskipti við umheiminn skipti okkur öllu máli, það sé aðalatriðið. Það er þess vegna, hv. þingmaður, sem við erum að berjast fyrir tilveru flugvallarins í Vatnsmýrinni. Ég skil vel þau sjónarmið sem hafa komið fram um þéttingu byggðar og áform um að borgin geti verið svona og hinsegin. Ég er ekkert endilega sammála þeim öllum eins og gengur, en það eru sjónarmið og ég virði þau. En ég bið þá aftur á móti um að mín sjónarmið, og þeirra sem vilja standa vörð um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, séu virt.

Formaður borgarráðs, Dagur B. Eggertsson, talaði um að með framlagningu þessa frumvarps væri ég í popúlisma, þetta væri bara bölvaður popúlismi — afsakið orðbragðið, ég dreg það til baka virðulegi forseti — hann sagði þetta nú kannski ekki orðrétt alveg svona en ég skildi hann þannig og sama mætti segja um borgarstjóra sem gerði hálfpartinn lítið úr þessari tillögu. Mér þótti það leitt, mér þótti það ekki til marks um hina málefnalegu umræðu sem ég tel að þurfi að fara fram og þar á meðal um þetta frumvarp. Þetta er ekki „af því bara“-frumvarp. Þetta er frumvarp sem tryggir aðkomu sem flestra að ákvörðun um þetta mikilvæga samgöngumál.

Hv. þm. Mörður Árnason talaði um að hann skildi ekki rökin fyrir því að þetta væru sérlög. Ég hélt að það hefði komið mjög skýrt fram í greinargerð. En að sjálfsögðu er það þannig að sérlög ganga framar almennum lögum. Þegar menn leggja fram frumvarp eins og hér er lagt fram verður það að sjálfsögðu að vera í búningi sérlaga til þess að það nái því markmiði sem um ræðir.

Að lokum vil ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vona að frumvarpið nái fram að ganga og í kjölfarið verði það Alþingis að taka ákvörðun, í umboði allra landsmanna, um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ég hef lýst skoðunum mínum en ég átta mig vel á því að þeir sem eru kosnir hingað á Alþingi sem fulltrúar Reykjavíkurborgar hafi eitthvað um það að segja. Ég fagna því líka að fjölmargir Reykvíkingar og fulltrúar þeirra vilji hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Ég tel að þetta frumvarp gæti, ef það nær fram að ganga, tryggt að svo verði.