143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:25]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það á við um þegna utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Þar þarf þetta leyfi, þar er almenna reglan sú að landakaup eru ekki heimil en innanríkisráðherra hefur heimild til þess lögum samkvæmt að veita undanþágu frá hinni almennu reglu. Og það kom til kasta þessa ákvæðis þegar kínverskur auðmaður vildi kaupa Grímsstaði á Fjöllum.

En varðandi þegna innan EES þá er þessi heimild fyrir hendi og það er það sem ég reyndi að takmarka með reglugerðarákvæðinu sem núverandi innanríkisráðherra nam brott. Þá vildi ég tengja eignarhaldið annarri atvinnustarfsemi þannig að menn væru ekki að safna upp jörðum.

Þá kem ég að öðru. Við erum ekki ein um þetta. Norðmenn t.d. hafa verið í mikilli endurskoðun á löggjöf sinni til að reyna að koma í veg fyrir stórfellda eignasöfnun auðmanna á jörðum, ekki bara erlendra heldur líka eignakaup norskra auðmanna á jörðum, og viljað finna leiðir til að sporna við slíku. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að þó að þetta tiltekna dæmi um kínverska auðmanninn sem vildi kaupa Grímsstaði á Fjöllum sé ofarlega í sinni þá er það bara eitt dæmi, það er bara víti til að varast. Eins og hv. þingmaður, fyrrverandi utanríkisráðherra, þekkir manna best þá hefur þessi umræða náttúrlega verið stöðugt á Íslandi allar götur frá því að við gengum í EES. Síðan veittum við ákveðnar tilslakanir frá upphaflegum samningstextum okkar sem ég hef viljað endurskoða enda (Forseti hringir.) er ekkert óeðlilegt að við tökum alla þá lagasmíð og reglusmíð til athugunar. Út á það gengur þingsályktunartillagan.