143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Nú veit þingheimur að ég hef endalausa þolinmæði gagnvart hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Mér er hlýrra til hans en flestra annarra í þessum sal. Því til sannindamerkis bendi ég á bók sem kom út rétt fyrir síðustu jól sem ég skrifaði og um það bil helmingurinn var eins konar pólitísk ástarjátning, a.m.k. félagsleg, til hv. þingmanns. Það eru líka fáir sem hleypa svo vökru sem hv. þingmaður og hann hefur komist næst því oft og tíðum að fá mig ofan af því sem var þó fjallgrimm skoðun mín í ýmsum málum. Við hv. þingmaður höfum borið gæfu til að geta rætt mál og stundum komist að sameiginlegri niðurstöðu. Slíkur eldmóður býr í hjarta og sinni hv. þingmanns sem flytur þingmálið sem er til umræðu að sennilega eru þeir fáir af þeim sem hafa verið mér pólitískt samferða gegnum síðustu tvo áratugi sem hefur jafn oft tekist að fá mig til að skipta um skoðun.

Ég verð hins vegar að segja að þegar hv. þingmaður kemur hingað og sýtir það mjög að núverandi hæstv. innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hafi afsett þá reglugerð sem hv. þingmaður, þáverandi hæstv. innanríkisráðherra, setti undir lok sameiginlegrar setu okkar í ríkisstjórn er ég honum ósammála. Það veit hv. þingmaður. Þegar við sátum saman í ríkisstjórn lýsti ég því alveg skýrt að ég teldi að sú reglugerð sem hv. þingmaður setti á þeim tíma stangaðist á við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég veit, eins og hv. þingmaður hefur rakið í ágætri ræðu sinni, að hann getur tekið til varna með því að benda á rök sem er hægt að finna í áliti sérfræðinga, sem hv. þingmaður kallaði þá til ráðuneytis sjálfum sér. Á sama tíma er líka rétt að fram komi að ég, sem var utanríkisráðherra þá, lét skoða þetta mál út í hörgul og niðurstaða sérfræðinga utanríkisráðuneytisins, og reyndar fleiri en einungis þeirra, var sú að þetta stangaðist á við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þess vegna er það niðurstaða mín að öðrum þræði, og ég vona að hv. framsögumaður líti ekki á það sem hártogun af minni hálfu en hann þekkir eðli mitt þegar til rökræðunnar kemur, lít ég á þetta sem viðleitni hv. þingmanns, sem er virðingarverð, til þess ekki bara að halda okkur utan Evrópusambandsins heldur líka til að koma okkur út úr EES. Tillagan er í reynd eins konar dulbúin hugmynd um að Ísland gangi úr Evrópska efnahagssvæðinu. Ég tel að hún standist ekki þann samning sem við erum aðilar að. Þó að hugmyndafræðin á bak við hana sé virðingarverð og hægt sé að taka undir hana með ýmsum hætti, eins og ég mun gera síðar í ræðu minni, tel ég eigi að síður eins og sakir standa, og munu að öllum líkindum standa um töluverða framtíð, að sá ávinningur sem við höfum af því að vera innan EES yfirgnæfi þá hagsmuni sem hv. þingmaður er hér að ræða.

Herra forseti. Mig langar að nefna tvennt til viðbótar. Í tillögunni er að finna merka greinargerð sem bersýnilega hefur verið sett saman af mjög lærðum spekingum og það segi ég án nokkurrar kaldhæðni. Það er ljóst að þeir menn sem um véla þekkja hverja þúfu í því landslagi sem þar blasir við. En ég var hér á dögum og sat í þessum sal og tók þátt í því þegar Alþingi Íslendinga á sínum tíma samþykkti að Ísland yrði aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Þá voru háværar raddir mjög margra þingmanna, sem að vísu reyndust þegar upp var staðið vera minni hluti, sem sögðu að ef samningurinn yrði samþykktur af Íslands hálfu mundi það leiða til þess að útlendingar keyptu hér dali, fjöll og ár. Umræðan dvaldi sérstaklega við að auðkýfingar úr löndum fjarri sem hefðu gnótt fjár og lyst til að veiða laxa sem spretta sporðum fjörugar í íslenskum straumvötnum en víðast hvar annars staðar mundu nota auðinn til að kaupa þessi straumvötn. Ég verð að viðurkenna að á þeim tíma óttaðist ég stundum að þeir hefðu rétt fyrir sér. Núna þegar alllangur tími er liðinn, nánast 20 ár, frá því að þær umræður urðu í þessum sal njótum við, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, þeirra forréttinda að geta horft til baka og metið þær staðhæfingar á mælikvarða tveggja áratuga reynslu. Þá kemur í ljós að ekkert af því sem menn sögðu á sínum tíma hefur gengið eftir.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur að vísu sagt að hægt sé að benda á það að einstakir útlendingar hafi keypt jarðir, stundum meira að segja samlægar jarðir. Í einu tilviki held ég að þeir hafi líka komið höndum yfir straumvatn þar sem gekk í fiskur sem þeir hafa síðan ræktað upp, og á þeirra vakt hefur orðið miklu meiri fiskgengd og miklu meiri vernd þeirra fiskstofna sem er að finna í þeirri á í Mýrdalnum en var áður. Hún er orðin þekkt veiðiá. Þegar ég var á stuttum brókum sem byrjandi stangveiðimaður fóru menn ekki til veiða þar einfaldlega vegna þess að fiskgengd var ekki eins og síðar hefur sprottið upp í skjóli þess útlendings sem hefur sannanlega ræktað ána upp.

Ég veit ekki betur en að á seinni missirum eftir að sú ræktun tókst næsta vel eigi ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, og aðrir sem vilja njóta þeirrar íþróttar sem felst í stangveiði, kost á því að kaupa þar veiðileyfi. Það var ekki svo á meðan viðkomandi maður var að rækta ána upp. Það er rétt að geta þess að einmitt vegna þess hversu vel honum tókst til með það vissi ég til þess, án þess að ég hafi nokkru sinni hitt þann einstakling, ég segi það hér alveg skýrt, að menn leituðu til hans úr öðru landshorni til að fá hann til að taka þar jörð og á til að reyna að rækta upp. Það er því ekki alslæm reynsla af slíku.

Það er líka annað atriði sem mig langar að benda á. Á sama tíma og hér er verið að velta því upp að reisa miklu fastari skorður við því að útlendingar geti keypt fasteignir á Íslandi — sem eins og ég hef reynt í örstuttu máli að færa rök fyrir er ekkert vandamál í dag — er vitað að hundruð ef ekki þúsundir Íslendinga eiga fasteignir annars staðar en á Íslandi. Spurningin er þá: Eigum við að meina útlendingum að gera það sem við gerum sjálfir og lítum á sem part af frelsi okkar?

Mig langar svo sérstaklega að ræða það sem ég held að sé annað meginmarkmið í þessari tillögu og með því hef ég mjög mikla samúð. Mér sýnist af máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar og þeirri greinargerð sem ég hef eytt töluverðum parti dags í að lesa mjög gaumgæfilega að fyrir honum vaki líka að koma í veg fyrir að íslensk/innlend fasteignafélög ríkra spekúlanta kaupi upp jarðir og skilji heilar sveitir eftir meira og minna mannauðar. Við sáum það gerast í aðdraganda kreppunnar. Við sáum líka hvernig fór fyrir þeim félögum. Með því sjónarmiði hef ég fulla samúð. Ég held að við séum öll þeirrar skoðunar að við viljum sjá gróandi mannlíf í sveitum landsins.

Þá kem ég að fortíð minni sem alþýðuflokksmanns. Á sínum tíma þegar við vorum að ræða EES-samninginn og vorum að vegast á með rökum um hvort það væri gott eða slæmt að útlendingar vildu kaupa jarðir á Íslandi var staðan í landbúnaði þannig að búum fækkaði, eins og í dag. En búin voru miklu smærri þá, bændur voru fátækari og það blasti við sérstaklega, og mikið um það ritað á þeim tímum, að bændur gætu ekki einu sinni brugðið búi og flutt sig þegar ellin færðist yfir, eins og gerist í lífi okkar allra, vegna þess að jarðir og jarðnæði sem þeir áttu, og var það eina sem þeir áttu, var svo verðlítið á markaði að þeir gátu kannski keypt sér hálfa kjallaraíbúð í Reykjavík fyrir andvirði heillar jarðar. Það er hinn flöturinn á þessu.

Það má velta því fyrir sér hvort það sé slæmt að markaður sé fyrir jarðir og verð á jarðnæði hafi farið hækkandi. Ég hygg að það hafi hugsanlega skotið stoðum undir farsæla elli margra þeirra sem hafa hörðum höndum stritað í móður jörð til að færa okkur góðar og heilnæmar vörur úr landbúnaði. Það er hin hliðin. Ég vil taka algerlega skýrt fram að ég deili þeim varhuga sem hv. þingmaður geldur við því að gróðafíknir spekúlantar sem vilja festa fé sitt til langs tíma kaupi upp jarðir í gróðursælum sveitum, bregði búum og láti þær standa mannauðar, sem þýðir auðvitað að búseta í þeirri sveit rýrnar og verður minna virði sem því nemur.