143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur dregið saman í lokaræðu sinni meginkjarnann í máli sínu en hann er tvíþættur. Í fyrsta lagi er það að sögn hans meginmarkmið annað að koma í veg fyrir að útlendingar eignist land á Íslandi. Ég skil það, það er pólitísk skoðun. Ég tel hins vegar að það sé ekki vandamál, fyrir utan þetta eina tiltekna atriði sem við höfum hér rætt. En ég get hins vegar sagt við hann og glatt hann með því að ef það yrði að vandamáli þá er ég reiðubúinn til að skoða með honum leiðir.

Að því er varðar síðari þáttinn, sem hann telur vera meginkjarnann í þessari tillögu, þá er hann sá að koma í veg fyrir að auðmenn geti keypt upp lönd um sveitir og eins og hann orðaði það sjálfur, að heil héruð eða sveitir gætu komist í eigu örfárra auðmanna. Ég deili þeim varhuga sem hann geldur við því. Ég tel að það sé í sjálfu sér meira en einnar messu virði að skoða það sem segir hér t.d. í tölulið b í hinni efnislegu tillögu sem við ræðum hér. Það finnst mér góðra gjalda vert og ég held að tilgangurinn sé réttur, held til haga þeim fyrirvara mínum frá fyrri tíð að það eru tvær hliðar á þessu máli. Það er í þágu þeirra sem eiga jarðnæði bænda að verðið hækki. Þarna tengist þá hvort öðru afkoma bænda og velfarnaður þeirra en um leið deili ég því með hv. þingmanni að ég tel að við eigum að reyna að skila landinu í hendur barna okkar og komandi kynslóða með sem gróskuríkustu mannlífi. Að því leyti til höfum við ekki algerlega farið klofvega í þessari örlitlu orðarimmu.