143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Á undanförnum dögum og vikum hafa orðið miklar umræður um kjör launafólks og ekki hvað síst kjör hinna lægst launuðu. Ný ríkisstjórn ákvað í fjárlögum og skattbreytingum að skilja tekjulægstu 10–20% íbúa landsins eftir að mestu. Röng stefna ríkisstjórnarinnar endurspeglaðist í aðkomu hennar að kjarasamningunum sem voru felldir af um helmingi launþega á almennum vinnumarkaði. Nefskattar voru teknir upp í auknum mæli en þeir koma hvað verst út fyrir tekjulægsta hópinn. Gjöld í heilbrigðisþjónustu hækkuðu langt umfram áformaðar launahækkanir sem meðal annars endurspeglast í 20% hækkun á komugjöldum heilsugæslunnar.

Í miðri atkvæðagreiðslu ræðir svo fjármálaráðherra um hækkun lægsta þreps í virðisaukaskatti, þ.e. á matvörum. Ríkisstjórnin, Samtök atvinnulífsins og launþegahreyfingin í heild verða að taka höndum saman og bæta kjör hinna lægst launuðu og berjast gegn fátækt. Fjarlægja verður lægstu taxta í kjarasamningum til að tryggja að allir hópar í sambærilegum störfum, svo sem erlendir starfsmenn, njóti sömu kjara. Halda þarf í þann aukna jöfnuð sem náðist hjá fyrri ríkisstjórn en nú er allt að fara í gamla farið, aukinn ójöfnuður og aukin misskipting. Það þarf að stoppa það. Berjast verður fyrir bættum kjörum velferðarstétta, fylgja þar eftir jafnlaunaátaki sem átti að vera fyrsta skrefið. Bæta þarf kjör þeirra sem vinna með fólk jafnt við kjör þeirra sem eru að vinna með peninga.

Það þarf að vinna mjög ákveðið að því að eyða kynbundnum launamun og ég er sjálfur farinn að hallast að því meira og meira að setja verði fast neysluviðmið í framhaldi af því að við settum upp útreikninga á neysluviðmiðum, að stíga skrefið til fulls og setja fram lágmark neysluviðmiða.

Ég er líka farinn að hallast að því meira og meira og tel ástæðu til að skoða það alvarlega hvort lögfesta eigi lágmarkslaun í landinu til að tryggja að enginn búi undir ákveðnum tekjumörkum. Þetta hefur verið gert í miklu fleiri löndum en ég vissi um og hafði reiknað með og ég tel ástæðu til að skoða það alvarlega til að tryggja kjör fólks hér og hindra fátækt.