143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku var svokölluð kjördæmavika. Hv. þingmenn ferðuðust um kjördæmi sín, héldu opna fundi, heimsóttu fyrirtæki og hittu flokksmenn sína. Svo var einnig með framsóknarþingmenn í Norðvesturkjördæmi en við héldum 14 opna fundi þá vikuna. Margt var rætt á þeim fundum, allt frá einstökum fisktegundum yfir til þess hvernig setja ætti saman sogskipti.

Eitt málefni kom þó fram á nærri öllum fundum og það var framtíð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Fólk hefur miklar áhyggjur af framtíðarskipan er varðar landbúnaðarháskólann og það lýsti skoðun sinni á málefninu. Þótt kenningarnar séu margar er eitt sem er staðreynd, því að eins og segir í ályktun frá starfsmönnum skólans, með leyfi forseta:

„Við getum ekki beðið lengur — við verðum að sækja fram.“

Einnig kemur fram í ályktuninni að gerð var gæðaúttekt á skólanum og niðurstaða hennar er sú að sérstaða skólans er mikil á sviði náttúrunýtingar, landbúnaðar og umhverfisfræða, og að enginn skóli hérlendis sinni sambærilegri kennslu eða rannsóknum. Trausti er lýst á skólastarfið og gæði þess en þetta er allt árangur mikillar og erfiðrar vinnu starfsmanna.

Á þeim fundum þar sem málefnið bar á góma var komið inn á að enginn gæti sagt mér að áhugi og aðsókn að skólanum og í nám tengt landbúnaði væri lítil eða færi minnkandi. Það staðfestir fyrrnefnd úttekt en aðsókn í nám hefur aukist og skólinn sækir fast að helmingi rekstrarfjár í formi sértekna árlega á móti 30% niðurskurði á fjármunum til rekstrar síðustu fimm árin.

Nú er svo komið að óvissa ríkir um framtíð skólans og ekki er hægt að skera meira niður innan stofnunarinnar án þess að það komi niður á náminu eða komi til algjörrar uppstokkunar á starfsemi skólans. Við sem sinnum hlutverki stjórnvalda þurfum að svara kalli starfsmanna og nemenda skólans, byggðarinnar á Hvanneyri og fólksins í Borgarfirði. Við þurfum að taka af vafann með hag landbúnaðarháskólans fyrir brjósti og sækja fram.