143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér fannst athyglisverð frétt í Austurfréttum þar sem rætt var við formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, og hann talar meðal annars um að mikilvægast sé að komast aftur í ríkisstjórn og það hafi verið eitthvað rangt við það að vera ekki í ríkisstjórn. Hann skynjar mikinn létti innan flokksins að vera aftur í ríkisstjórn og það sé eitthvað öfugt við það sem það ætti að vera að vera ekki í ríkisstjórn.

Þá spyr maður sig: Telja menn sig vera þess máttuga að vera réttbornir til valda? Manni finnst þetta lykta eitthvað af því og spyr: Hvar er lýðræðishugsjónin? Er ekki eðlilegt að fólkið í landinu ráði því hverjir eru við stjórn hverju sinni og menn líti ekki svo á að það sé sjálfsagður hlutur að Sjálfstæðisflokkurinn haldi hér um valdataumana áratugum saman eins og það séu bara einhver hjú sem koma á einhverra áratuga fresti og taki til eftir óstjórn flokksins og síðan komist hinir réttbornu aftur til valda?

Mér finnst þetta viðtal lýsa alveg ótrúlegu hugarfari og líta niður á lýðræðishugsjónina. Maður spyr sig varðandi það að það sé svo mikill léttir innan flokksins: Er það út af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið hlífiskildi yfir valdastéttinni í landinu, auðvaldinu í landinu, og því sé mikill léttir á þeim bænum að þessi flokkur sé nú kominn aftur til valda og geti stjórnað ferðinni hér í landinu? Ég spyr mig að því.