143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Þær fréttir voru sagðar í vikunni að ákvörðun hefði verið tekin um það af hálfu landeigenda við Geysi í Haukadal að hefja sölu á aðgangi að því mikilvæga ferðamannasvæði. Þetta vekur nokkrar áhyggjur. Nú er það að sjálfsögðu svo að uppi hafa verið umræður um það með hvaða hætti eigi að tryggja fjármögnun til fjölsóttra ferðamannastaða, þjóðgarða o.s.frv. og á síðasta kjörtímabili var ákveðið að leggja úr sameiginlegum sjóðum sérstakt fjármagn til þess en þar var líka gert ráð fyrir því að fjármagna meðal annars með sérstöku gistináttagjaldi. Þá voru líka uppi áform um 14% virðisaukaskatt á ferðaþjónustu þannig að atvinnugreinin legði líka eitthvað af mörkum inn í þetta.

Að sjálfsögðu má ræða slíka hluti en þessi ákvörðun vekur áhyggjur af því að þetta sé sú leið sem á að fara. Í umræðu af hálfu hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fer með ferðamál, hefur mátt skilja að í ráðuneyti hennar sé verið að skoða hvernig eigi að standa fjármögnun til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Þar hafa verið uppi hugmyndir um svokallaða náttúrupassa sem vægast sagt hafa fengið óblíðar móttökur hjá atvinnugreininni sjálfri. Þessi vandræðagangur í ríkisstjórninni í þessu máli leiðir síðan til þess að landeigendur við Geysi taka þá ákvörðun að hefja sölu inn á svæðið frá 10. mars nk.

Eins og ég segi, herra forseti, vekur það áhyggjur að þessi skref séu stigin og maður veltir fyrir sér hvort það sé kannski, þrátt fyrir allt, sú leið sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að fara í þessum málum, að setja upp gjaldtökuhlið á fjölsótta ferðamannastaði þannig að menn greiði fyrir aðgang að hverju svæði fyrir sig.