143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

heilbrigðisþjónusta og sjúklingagjöld.

[15:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst rétt að halda því til haga að heilbrigðisþjónustan á að vera grunnþjónusta sem greidd er úr sameiginlegum sjóðum landsmanna þar sem menn greiða skatta sína eftir efnum og aðstæðum og fá læknisþjónustu og lyf eftir þörfum og eiga að bera lítinn sem engan kostnað af almennri heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðiskerfinu er ætlað að tryggja fólki jafnan aðgang að þjónustunni og heilsugæslu og heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaðurinn. Sjúklingar í dag eru látnir bera kostnaðarauka af einkarekstri í læknisþjónustu. Núverandi stjórnvöld sigla greinilega í þá átt að vilja breyta rekstrarformi heilbrigðisþjónustunnar og hafa hana í svokölluðu fjölbreyttara rekstrarformi sem við vitum að þýðir ekkert annað en að einkaaðilar njóta arðs af heilbrigðisþjónustunni en ekki samfélagið sem heild, þ.e. þjónustan verður dýrari.

Það er hættulegt að við fjarlægjumst það norræna módel sem við höfum haft til viðmiðunar og þróumst í átt til ameríska módelsins þar sem sjúklingar bera háan sjúkrakostnað og þurfa að treysta á dýrar sjúkdómatryggingar. Hlutur sjúklinga þar sem greitt er beint úr eigin vasa hefur vaxið verulega á undanförnum árum, sérstaklega vegna ýmiss konar ferliverka sem rukkað er sérstaklega fyrir en var áður hluti af þjónustu á sjúkrahúsum sem er ókeypis samkvæmt lögum.

Verkalýðshreyfingin hefur krafist þess að ríkið afturkalli gjaldskrárhækkanir og hækkun komugjalda í heilbrigðisþjónustu sem leggst þungt á sjúklinga og þá tekjulægri sem margir hverjir fresta því að leita sér lækninga en ríkisstjórnin hefur þverskallast við þeirri kröfu.

Stjórnarandstaðan kom í veg fyrir sjúklingaskatta á innlagnir á sjúkrahús eins og við munum við afgreiðslu síðustu fjárlaga en öll framganga þessarar hægri stjórnar er því miður í stýringu í átt að auknum einkarekstri.