143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

heilbrigðisþjónusta og sjúklingagjöld.

[16:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að hefja máls á þessu brýna málefni, þ.e. kostnaðarhlutdeild sjúklinga sem hefur farið vaxandi á liðnum árum eins og kom fram í máli hans. Það er auðvitað mikilvægt að leita svara við því viðfangsefni og bregðast við. Ég vil jafnframt þakka hæstv. ráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir viðbrögð hans og upplýsingar í málinu.

Ég ætla að taka undir þau orð hæstv. ráðherra að þarna séu lykilorðin rannsóknir og forvarnir. Það er auðvitað mjög víðtækt svið. Ég ætla jafnframt að skella fram tveimur orðum: Pólitísk samstaða.

Það er grundvallarþáttur í heilbrigðiskerfi okkar að allir hafi jafnt aðgengi að þeirri heilbrigðisþjónustu sem er í boði. Hér hefur ríkt sátt og samstaða um að tryggja jafnt aðgengi að þjónustu og að kostnaður við þjónustuna sé borinn upp að megni til af almannafé. Vandinn sem við erum að kljást við er hvað „að megni til“ þýðir. Hversu langt getum við gengið í þeim efnum? Hagtölurnar verða að stýra ferðinni í því efni.

Það er rétt sem komið hefur fram að kostnaðarhlutdeild heimilanna hefur farið vaxandi. Staðreyndin er hins vegar sú að á sl. þremur áratugum hafa heildarútgjöldin hækkað úr 6,4% í 9,1% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það þurfum við að kljást við.

Við erum sammála um að kostnaðarhlutdeild sjúklinga er of há. Sú staðreynd þýðir að við verðum með hugmyndaauðgi (Forseti hringir.) og bættu skipulagi — ef það á að heita fjölbreytt rekstrarform þá má það bara heita það — að vinna að sanngjarnara kerfi og auknu jafnræði á milli einstaklinga og sjúklingahópa.