143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

heilbrigðisþjónusta og sjúklingagjöld.

[16:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir viðbrögð hans í þessari umræðu. Hann byrjaði á því að lýsa því yfir að hann hefði áhyggjur af því hve kostnaðarþátttaka sjúklinga væri orðin mikil á Íslandi. Það er einu sinni svo að hafi menn áhyggjur af tilteknu ástandi vilja þeir færa það til betri vegar og það er gott. Þarna erum við á sama máli.

Hann sagði að vandinn væri fjármögnunarvandi. Ef við ætluðum að hafa við lýði gott heilbrigðiskerfi þyrfti að greiða fyrir það úr sameiginlegum sjóðum eða úr vösum sjúklinga. Þetta er greiðsluvandinn en síðan er hinn pólitíski vandi. Hvernig ætlum við að haga hlutföllunum þarna á milli eða hvert viljum við stefna? Í gjaldfrítt kerfi eins og þekkist í Danmörku, Skotlandi? Eða í kerfi sem byggir á þátttöku sjúklinga.

Hér á landi borga sjúklingar 30 milljarða af þeim 150 milljörðum sem fara í heilbrigðiskerfið. 30 milljarðar eru teknir úr vösum sjúklinga. Nú segir ríkisstjórnin: Þeim er ranglátlega skipt. Á herðar hverra? Sjúklinganna. Nú skulum við jafna það. Við búum til mengi sem heitir sjúklingar og búum til réttlæti innan þess mengis. En ég spyr: Hvers vegna ekki að horfa til þeirra sem enga sjúkdóma bera? Til landsmanna almennt sem eru aflögufærir og greiða í gegnum skatta sína til ríkisins og inn í sameiginlega sjóðinn? Það er þangað sem við eigum að stefna en ekki inn í þetta nýja réttlæti sem byggir á menginu sjúklingar, að búa til einhvern jöfnuð þar innan.

Ég vil þó taka fram að í þeim vangaveltum sem menn eru í í þessari nefnd (Forseti hringir.) er sitthvað gott að finna. En þessi grunnhugsun er mér ekki að skapi og ég vara mjög eindregið við henni. Við eigum að láta þá borga sem eru frískir en ekki fara í vasa hinna sem eru veikir.