143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

heilbrigðisþjónusta og sjúklingagjöld.

[16:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Í tilefni af síðustu orðum hv. málshefjanda sem beinir þeirri áskorun til okkar að við látum þá borga sem eru frískir þá eru þeir óvart að borga háar fjárhæðir, sennilega yfir 115–120 milljarða. Rekstrarkostnaðar kerfisins er 139 milljarðar og af því borga sjúklingar 11,5%, 16 milljarða. Til viðbótar koma síðan 16 milljarðar sem ríkið tekur ekki neinn þátt í, m.a. 3–4 milljarða af lyfjum sem ekki eru lyfseðilsskyld. Þetta er einn partur sem sýnir fram á hve umræðan getur verið flókin og erfið þegar verið er að bera saman hlutföll og fleira því um líkt.

Ég tek undir með hv. málshefjanda varðandi það hver hinn pólitíski veruleiki er. Við þurfum aðeins að átta okkur á því. Ég held að allir séu sammála um að kerfið er óréttlátlega byggt upp eins og það er. Það er flókið, ógegnsætt og óskiljanlegt, líka þeim sem þurfa að eiga viðskipti við kerfið þó ekki væri nema til að reyna að átta sig á því á hverju þeir eiga von ef þeir verða svo óheppnir að þurfa að eiga viðskipti við íslenskt heilbrigðiskerfi. En nr. eitt, tvö og þrjú þá tryggir þetta ekki einstaklinga sem verða fyrir þessu nægilega vel. Það hlýtur að vera hægt að ná samstöðu um það hér að breyta kerfi sem við erum öll sammála um að er ekki nógu gott. Svo getum við alveg deilt um leiðir að því. Hv. þingmaður talar fyrir því að taka inn í það meira fé úr ríkissjóði. Það er ein skoðun. Önnur skoðun er sú að jafna þessu út á sjúklinga og þá væntanlega stærri þáttum á skattgreiðendur. Þetta eru allt atriði sem við getum skoðað. Meginatriði er að við náum saman um að einbeita okkur að þessari vinnu. Ég hvet þingmenn til þess, vegna þess að þetta er (Forseti hringir.) mjög brýnt mál, að einhenda sér í þá vinnu sem við höfum þó efnt til. Ég hvet hv. þm. Helga Hjörvar til að finna sér forsendur þeirrar vinnu sem Péturs Blöndals-nefndin er að vinna eftir.