143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

almenningssamgöngur.

[16:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir þessa umræðu í dag. Þetta eru mikilvæg mál og það er mikilvægt að við ræðum þau reglulega hér og séum meðvituð um stöðu og fyrirkomulag almenningssamgangna í landinu. Hv. þingmaður hv. fór ágætlega yfir forsögu málsins. Ég held að við getum flest verið sammála um að gamla sérleyfiskerfið eins og það var sé úr sér gengið, óskilvirkt og illa nýtt. Það er stutt síðan gerðir voru einkaleyfissamningar við landshlutasamtök um að almenningssamgöngur skyldu á þeirra höndum og fjármunum veitt til þess í samræmi við það fé sem áður fór til reksturs sérleyfa á svæðunum víða um land. Það þekkja þingmenn.

Nú má fara yfir það og ræða það og auðvitað eru skiptar skoðanir um hvort og hvernig ríkið kemur að þessum verkefnum. Þetta er auðvitað ekki lögbundið hlutverk ríkisvaldsins, en engu að síður ákvað ríkið að ganga til þessara verka með þessum hætti, bæði til þess að ná þeim markmiðum sem hv. þingmaður lýsti ágætlega, en líka vegna þess að á þeim tíma taldi þáverandi innanríkisráðherra, og ég tek undir það með honum, að eins og verkefnið var lagt upp þyrfti að koma til móts við landshlutasamtökin út af ýmsu öðru sem tengdist niðurskurði og breytingum á samgöngukostum og aðstæðum úti um allt land. Því var gengið í þetta verkefni. Í gildi eru samningar við öll landshlutasamtök á landsbyggðinni um að reyna að mynda samfellt almenningssamgöngukerfi við landið.

Í þessari umræðu er líka mikilvægt að halda því til haga að þrátt fyrir að við kunnum að hafa á því ólíkar skoðanir hvernig ríkið hefur atbeina að þessu verkefni breytir það ekki þeirri staðreynd að um verkefnið er ágæt sátt. Kannski er meiri ánægja almennt en menn töldu í fyrstu. Sveitarstjórnarmenn um allt land koma því áleiðis reglulega og eru meðvitaðir um að þetta geti nýst samfélögum þeirra vel. Þeir telja að reynslan af því sé yfirleitt ágæt og jafnvel mjög góð á sumum stöðum þó að það sé auðvitað enn að mótast. Ekki hefur liðið langur tími þannig að það þarf lengri tíma til reynslu.

Ég vil upplýsa þingheim um að ég hitti nýlega fulltrúa þeirra aðila sem nefndir voru hér í ræðu hv. þingmanns, reyndar hef ég gert það mörgum sinnum frá því að ég tók við sem innanríkisráðherra. Ég er t.d. nýbúin að funda með formanni SSS og Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess að fara yfir þá stöðu sem upp er komin og sem þingmaðurinn lýsti. Og nú er að hefjast ákveðin vinna með það að markmiði að endurskoða fyrirkomulagið, menn velta því fyrir sér hvort fjármagnið sé eins vel nýtt og mögulegt er. Mörg landshlutasamtökin hafa talið að fjármagninu sé ekki alveg skipt með sanngjörnum hætti og telja líka að leiðbeiningarnar við verkefnið hafi hugsanlega ekki verið fullnægjandi. Fara þarf yfir það til að tryggja að landshlutasamtökin leggi af stað í verkefni sem síðan er sagt að gangi ekki upp, eða að ríkisvaldið lendi í því að vera í kæruferlum og fái hugsanlega á sig skaðabótakröfu vegna þessara verka. Það verk er nú hafið með þessum aðilum.

Varðandi fyrirkomulag almenningssamgangna á Suðurnesjum er það alveg rétt sem hv. þingmaður nefndi, að upp kom sú staða síðastliðið sumar, nánar tiltekið 14. júní síðastliðinn, að Samkeppniseftirlitið gaf út álit vegna einkaleyfissamtaka sem Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum höfðu gert í kjölfar útboðs. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var mjög afdráttarlaus; þar sagði að sú aðgerð sem þar væri farið í stæðist ekki lög. Skilaboðin til mín sem ráðherra voru einnig mjög afdráttarlaus; að draga þyrfti einkaleyfið til baka og mæla jafnvel fyrir því og að ég sem ráðherra skyldi tryggja að gerðar yrðu breytingar á lögum til þess að koma í veg fyrir að svona gæti gerst aftur.

Í framhaldi af því voru haldnir margir langir og strangir fundir til þess að reyna að finna lausn á málinu. Það stóð yfir í allt sumar. En í lok árs gat Vegagerðin ekki annað en rift þeim samningi miðað við þann lagaramma sem hún telur sig þurfa að starfa innan og miðað við þær túlkanir sem hún hefur fengið á þeim lagaramma. Það er í samræmi við túlkun Samkeppniseftirlitsins sem er mjög afdráttarlaus og ég hvet þingmenn til að fara yfir. Nú getur verið lögfræðilegur ágreiningur um það. Mér er kunnugt um að um það hefur verið tekist á og skiptar skoðanir eru þar á, en það breytir engu um að Samkeppniseftirlitið kom mjög skýrum ábendingum áleiðis til Vegagerðar, til innanríkisráðuneytisins, um að þetta væri ekki í samræmi við lög og stæðist heldur ekki ákveðnar reglugerðir sem við erum aðilar að, reglugerð frá Evrópuþinginu og Evrópuráðinu frá 2007 um almenna farþegaflutninga, það væri einnig verið að brjóta hana. Í samræmi við það var þessum samningi rift og svo verður farið yfir það hvernig best verður haldið á málum í framtíðinni.

Þó að upp hafi komið einhvers konar hindranir á leiðinni í þeirri vinnu sem við erum í núna, sem er að koma á þessari breytingu, þá hvet ég okkur til þess fyrst og síðast meðvituð að vera um að verkefnið virðist ganga vel á flestum stöðum. Það er umtalsverð ánægja með verkefnið í sveitarfélögunum um allt land. Þess vegna var tekin ákvörðun um það, sem var ekki alveg sjálfgefin, (Forseti hringir.) að halda áfram með verkefnið þó að búið sé að skipta um ríkisstjórn í landinu.