143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

almenningssamgöngur.

[16:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á árinu 2011 var hafist handa um að gera stórátak til að bæta almenningssamgöngur í landinu, ekki bara á þéttbýlissvæðum á Suðvesturhorninu og í kringum Akureyri, heldur um land allt. Það var ákveðið að fela landshlutasamtökum sveitarfélaga að annast það verkefni. Þau væru næst íbúunum og þekktu þarfir þeirra. Til þess að þau hefðu myndugleika til að taka á málinu þurfti að breyta lögunum þannig að þau fengju eða gætu öðlast einkaleyfi í sínum landshlutum. Þetta var gert. Lögum var breytt. Síðan voru gerðir samningar við landshlutana á árinu 2012. Þetta gafst alls staðar ágætlega nema í undantekningartilvikum þar sem einstök fyrirtæki töldu sig geta grætt og þau vildu ekki sjá þetta fyrirkomulag. Þau fengu Samkeppniseftirlitið í lið með sér. Samkeppniseftirlitið hefur alltaf verið á móti þessu fyrirkomulagi. Það hefur alltaf agnúast út í þetta og sagt að frumskógarlögmálin ættu bara að ríkja á þessu sviði.

Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum getur ríkisstjórnin ekki unnt Suðurnesjamönnum að njóta nánast þeirrar einu auðlindar sem Suðurnesin hafa sem er að vera miðstöð samgangna fyrir Íslendinga, alþjóðaflugsins, og gera það sama og Helsinki gerir, að samþætta flutninga frá flugstöðinni almenningssamgöngukerfinu í landinu? Það er rangt og það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra að Samkeppniseftirlitið hafi eitthvað úrslitavald í þessu máli. Það getur gefið álit og það hefur gefið mörg vitlaus álit í þessu máli, en það hefur ekki vald umfram sérlög sem Alþingi setur og getur ekki gengið yfir þau.

Það er líka rangt að þetta stríði gegn EES-rétti. Það er rangt. (Forseti hringir.) Yfir þetta var rækilega farið í minni tíð sem innanríkisráðherra. Spurningin er þess vegna pólitísk: Ætla menn að draga taum einkaaðila (Forseti hringir.) sem geta ekki unnt sveitarfélögunum að njóta samlegðarinnar eins og Suðurnesjamönnum og öðrum (Forseti hringir.) sem þurfa að treysta á þetta (Forseti hringir.) eða ætla þeir að þjóna almannahag? Ég bara spyr.