143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

almenningssamgöngur.

[16:42]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum var mikilvægt skref tekið í að stórbæta samgöngur fyrir almenning þegar landshlutasamtökum var falið af ríkinu að sjá um að skipuleggja almenningssamgöngur á svæðum þeirra. Þessi breyting varð til þess að mikil aukning varð á notkun almenningssamgangna og fjölfarnar leiðir standa nú undir kostnaði fáfarinna leiða. Í heild skilar kerfið ekki hagnaði enda styrkir ríkið almenningssamgöngur hvers svæðis.

Nú lítur út fyrir að stela eigi gullkú akstursleiða á Suðurnesjum. Taka á leiðina milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur út úr kerfinu. Hvað er best fyrir almenning? Er best fyrir almenning að taka bestu leggina og arðsömustu verkefnin og afhenda þau einkafyrirtækjum? Er það besta leiðin til að byggja upp almenningssamgöngur á Íslandi?

Þegar ferðaleið eða akstursleið verður arðbær er henni kippt út úr samgöngukerfinu eins og við sjáum gerast núna. Hvað verður næst? Selfoss–Reykjavík? Hafnarfjörður–Hlemmur? Hvernig eiga sveitarfélög og landshlutasamtök að geta skipulagt sjálfbært almenningssamgöngukerfi ef leiðum er kippt út úr kerfinu um leið og þau skila hagnaði? Hvað gerist síðan ef leiðirnar verða óhagstæðar einkafyrirtækjum, rekstrargrundvöllur hverfur? Eiga skuldir að lenda á ríki og sveitarfélögum og eiga þau að taka við leiðunum aftur?

Virðulegur forseti. Það er skýr lagastoð fyrir því að hagnað af arðbærum leggjum almenningssamgangna megi nota til að borga niður þá óarðbæru. Framkvæmdastjórn ESB hefur staðfest að slíkt er heimilt í Danmörku. Hvers vegna ætti það ekki að vera heimilt hér? (Gripið fram í.) Það er afar slæm þróun ef það á að ríkisvæða tapið og einkavæða gróðann.