143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

almenningssamgöngur.

[16:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður og svör hæstv. innanríkisráðherra.

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið á dögunum. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að fullyrða að stjórnin hefur alla bæjarfulltrúa í öllum bæjarfélögunum að baki sér. Málið er þverpólitískt og varðar almannahag. Sveitarstjórnarmenn í öðrum landshlutum eru einnig uggandi og hafa áhyggjur af því að hagstæðum leiðum verði kippt út úr almannasamgöngukerfi þeirra. Þá er líklegt að sveitarfélögin segi sig frá verkefninu vegna forsendubrests.

Það er ekki verið að biðja um að lög verði brotin. Það er heimilt samkvæmt EES-rétti að takmarka samkeppni séu almannahagsmunir þar að baki, t.d. að ríkið eitt reki vínbúðir eða spítala. Álit Samkeppniseftirlitsins þýðir ekki að framkvæmdin á almannasamgöngukerfinu á Suðurnesjum sé ólögmæt. Enginn dómstóll eða þar til bært stjórnvald hefur úrskurðað útboðið á Suðurnesjum ólögmætt eða lögin ólögmæt. Því eru viðbrögð Vegagerðarinnar og hæstv. innanríkisráðherra um að kippa leiðinni út úr kerfinu óþörf og óásættanleg.

Í stuttu máli leggur Samkeppniseftirlitið til að allar leiðir sem skila hagnaði verði einkavæddar og allar leiðir sem skila tapi ríkisvæddar. Verði sú leið farin þarf ríkissjóður að borga meira með almenningssamgöngum eða að þær versna til muna. Er það vilji hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. ríkisstjórnar að einkaaðilar fái gróðann af leiðum sem standa undir sér en almenningur greiði hallann af óhagstæðari leiðum? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að aðrar arðbærar leiðir verði teknar út úr kerfum í öðrum landshlutum eða á bara að einkavæða gróðann af einni arðbærri leið á landinu, leiðinni á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur? Er það eina leiðin sem á að kippa út úr kerfunum og gera þar með heildstætt almenningssamgöngukerfi (Forseti hringir.) á Suðurnesjum ónýtt?