143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

umferðarlög.

284. mál
[16:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og nota tækifærið til að óska honum til hamingju með bílprófið. Þótt seint hafi komið kom það þó, sem er ánægjulegt.

Varðandi fyrirspurnina um þessa þætti sérstaklega, að öllu gamni slepptu, er gert ráð fyrir því að til að mega aka þeim ökutækjum sem hv. þingmaður vísar til, léttum bifhjólum, þurfi ákveðið próf. Hins vegar er gert ráð fyrir því að það verði ekki innleitt strax, það er gefið ár til þess að fara yfir málið og ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig prófið verður. Það verður í höndum til þess bærra aðila að meta hvernig það verður. Það verður ekki eins og hefðbundið ökupróf en gerðar verða ákveðnar kröfur. Samgöngustofa fær nú ár til að fara yfir og meta hvernig þetta verður nákvæmlega. Þannig að ég get ekki upplýst hv. þingmann um það nákvæmlega hér og nú hvernig á því verður haldið en skal sannarlega gera það þegar það liggur betur fyrir.

Það er umhugsunarefni og menn geta rætt það í hv. nefnd þegar farið verður yfir málið, hvort lengja eigi þennan tíma enn frekar, gefa mönnum rýmri tíma, eða hvort menn hafi einhverjar sérstakar skoðanir á því hvernig skilyrðin skulu vera nákvæmlega til þess að fá að aka þessum rafhjólum eða léttu bifhjólum. Eins og hv. þingmaður bendir á komast þau sannarlega hvorki jafn hratt né eru af sama tagi og hefðbundin ökutæki.