143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

umferðarlög.

284. mál
[17:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Já, hugmyndin er sú samkvæmt frumvarpinu að þessi endurmenntunarákvæði og endurmenntunarskylda sem verið er að leggja á atvinnubílstjóra gangi líka yfir þá sem ekki eru í verkefninu allan ársins hring, heldur tímabundið yfir sumartímann. Það er alveg það sama sem gildir um þá.

Það hefur komið fram í máli þeirra sem hvað mestar áhyggjur hafa haft af því að þetta væri íþyngjandi, en reglurnar sem við erum að undirgangast með þessu eru alveg skýrar og engin undanþága frá þeim þrátt fyrir að um sé að ræða tímabundið starf. Það sem við erum að gera með þessu, virðulegur forseti, eins og ég talaði um hér áðan, er að gefa þessum fyrirtækjum og einstaklingum dálítið góðan tíma fram til 2018 til þess að fullnusta þetta. Við áttum okkur á því að sérstaklega úti á landsbyggðinni getur þetta verið flókið. Gert er ráð fyrir ákveðnu námsefni, námskeiði og ákveðnu fyrirkomulagi sem krefst skipulags, þannig að innleiðingin fær þetta góðan tíma.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir þá á þetta jafnt við um þá sem í þessum störfum eru tímabundið eins og varanlega.