143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

umferðarlög.

284. mál
[17:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þingmanni. Fyrst varðandi það sem nefnt er um eftirlit á vegum, heimildir Samgöngustofu og það sem hv. þingmaður nefnir réttilega er varðar ákveðnar breytingar á aðbúnaði lögreglu til þessara aðgerða o.s.frv., þá treysti ég nefndinni til að skoða hvort hægt sé að koma til móts við það sem við erum að gera í þessu frumvarpi mjög klárt og skýrt sem er að svara þeim ábendingum sem við höfum fengið frá ESA. Við erum að reyna að standast þær kröfur sem Evrópusambandið gerir til okkar hvað þetta varðar, viljum gera það með eðlilegum og góðum hætti.

Sé það þannig að þetta verði tryggt í gegnum aðra löggjöf, líkt og þingmaðurinn bendir á að sé mögulegt, gerum við engar athugasemdir við það. Við erum einungis að hugsa um að við séum að mæta þessum hliðum. Ég hvet þingheim til að rýna sérstaklega í það hvort hægt er að gera það eftir öðrum leiðum og hvort þetta er kannski tryggt í gegnum það sem þingmaðurinn nefndi.

Varðandi léttu bifhjólin og réttindi þeirra sem þegar aka slíkum bifhjólum og hafa gert í einhvern tíma var það ástæðan fyrir því að ég nefndi áðan, þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi málið, að hugsanlega væri sanngjarnt og rétt að skoða aðeins lengri tíma en ár. Það hefur verið rætt í ráðuneytinu hvort eðlilegra hefði verið að hafa þennan tíma, ég beini því líka til þingnefndarinnar, örlítið lengri til að tryggja að þeir sem þegar hafa leyfi glati því ekki og þurfi að fara í ákveðna enduraðgerð til að tryggja að þeir hafi þann rétt sem þeir hafa í dag.

Verði tímafresturinn lengdur, segjum t.d. upp í þrjú ár, mundi það þýða að þeir sem hafa þennan rétt í dag fengju hann sjálfkrafa hvort eð er. Það er eitthvað svona sem ég varpa til nefndarinnar að skoða og er ekki að okkar mati heilög tímasetning. En hugnist mönnum betur að lengja þann tíma er það til dæmis ekki talið skaða með neinum hætti þá innleiðingu sem við erum að reyna að uppfylla hér.

Ég næ ekki fleiru í þessari atrennu.