143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

umferðarlög.

284. mál
[17:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Af því að hér hafa spunnist umræður um fyrri menntun mína á sviði ökumennsku er rétt að það komi fram að ég hef stundum á ævinni, sérstaklega fyrr á henni, gengið upp til mikilla prófa. Ég hef aldrei kviðið fyrir nokkru prófi eins og þegar ég tók ökupróf, miklu meira en þegar ég tók doktorspróf á sínum tíma.

Ég kem hingað aðeins til að hnykkja á því sem ég ræddi áðan. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. ráðherra ætti að skoða það mjög vel með sínu fólki hvort ekki væri rétt að ganga mjög hægt og varlega um dyr þegar verið er að setja niður einhvers konar skilyrði um að menn þurfi að ganga í gegnum harðvítug próf áður en þeir fá hin nýju réttindi sem frumvarpið mælir fyrir um til að geta verið á léttum bifhjólum sem falla í flokk I og ná ekki nema 25 km hraða á klukkustund. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi ekki að gera of stífar kröfur þar. Ég hef þegar lagt það sem hugmynd til hæstv. ráðherra að hugsanlega væri nóg að setja aldurstakmark. Sömuleiðis hefur komið fram í hljóðskrafi meðal þingmanna að hægt væri að gera skilyrði um námskeið án harðvítugra prófa og sömuleiðis að hnýta þetta einhvers konar skilyrðum um tryggingar þannig að ljóst væri að ef einhvers konar tjón hlytist af slíkum akstri yrði það bætt af tryggingum. Þetta finnst mér skipta mjög miklu máli.

Ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni áðan að menn eiga ekki að setja nein lög eða reglur nema það séu algerlega skýrar ástæður fyrir því. Ég hef þegar bent á að í greinargerð með þessu ágæta frumvarpi kemur algerlega skýrt fram að þó að frumvarpið sé sett til að innleiða 17 gerðir og tilskipanir frá Evrópusambandinu eins og ég taldi saman er þetta tiltekna ákvæði sem ég ber fyrir brjósti einungis sett vegna þess að þannig er það gert í Danmörku. Með öðrum orðum, það eru einu rökin sem eru flutt fyrir þessu. Það kom hvorki fram í ræðu hæstv. ráðherra né heldur er það að finna í greinargerðinni að einhverjar sérstakar ástæður séu til þess. Slíkar ástæður gætu verið að það hefðu orðið slys eða einhvers konar áföll sem menn vildu varast af hálfu þeirra sem aka þeim hjólum sem í dag eru flokkuð sem reiðhjól en munu flokkast sem létt bifhjól. Ef þær tölur liggja fyrir væri í sjálfu sér áhugavert að sjá þær en það verður að liggja fyrir til að menn geti fallist á að þrengja þennan möguleika sem í einhverjum tilvikum kann að vera þrenging á frelsi manna.

Ég vil sömuleiðis vekja eftirtekt hæstv. ráðherra á því að ég kann ekki bara að aka bíl, ég get líka verið á reiðhjóli. Ég get trúað hæstv. ráðherra fyrir því að ég er svo karskur og vaskur á því sviði að ég treysti mér til að fara mun hraðar en 25 kílómetra á klukkustund. Á hefðbundnu reiðhjóli gæti ég orðið mun hættulegri og skæðari í umferðinni en þeir sem eru á léttum bifhjólum. Þá spyr maður sjálfan sig: Af hverju á þá ekki að setja prófkröfur á þá sem fara á reiðhjóli? Allir vita og skilja hversu fáránlegt það væri.

Ég er viss um að hæstv. innanríkisráðherra sem hefur örugglega kynnt sér hinn létta ferðamáta á þessum síðustu og bestu tímum veit líka að það er hægt að kaupa lausa rafmótora og smella þeim á reiðhjól sem ná þá meira en 25 kílómetra hraða á klukkustund. Ég er því þeirrar skoðunar að þarna sé kannski ekki búið að ígrunda málið nægilega vel. Því nefni ég þetta að ég er að öðru leyti nokkuð hlynntur frumvarpinu, þar er ekkert sem angrar mig að öðru leyti. Þetta atriði sem hreyfir aðeins við mér er auðvitað eitt af hinum allra smæstu atriðum í frumvarpinu en ég mælist til þess að hv. þingmenn sem sitja í samgöngu- og umhverfisnefnd skoði það ákaflega grandgæfilega.

Ég tók líka eftir því að hv. þm. Vilhjálmur Árnason velti því fyrir sér hvort þörf hafi verið á því að setja hæðarmörk fyrir þá sem mega vera farþegar á bifhjóli. Ég vil af því tilefni vekja eftirtekt hæstv. ráðherra á því að einn af glæsilegustu herforingjum veraldarsögunnar, Napóleon, hefði sennilega ekki fengið leyfi hjá henni til að sitja aftan á bifhjóli á Íslandi í dag og var hann þó vaskastur manna. Ég er ekki alveg viss um að þetta sé nauðsynlegt ákvæði en tek fram að ég er reiðubúinn til að bakka með þá skoðun mína ef þeir sem um véla geta uppfyllt þær forsendur sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason lagði fyrir sínum skilningi og hugsanlega samþykki við málinu, að það yrðu að liggja fyrir góðar ástæður þessu til grundvallar.

Ég er þeirrar skoðunar að hversu lítið sem menn ganga í þrengingar í lögum og reglum verði alltaf að vera ástæður fyrir þeim. Það er kannski með tilliti til sögu Íslendinga á liðnum öldum að ég er ekki reiðubúinn til að fallast á lagabreytingar bara af því að Danir hafa gert þær áður.