143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

rannsókn á leka í ráðuneyti og staða innanríkisráðherra.

[10:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru augljóslega skiptar skoðanir á því hvenær teljist við hæfi að ráðherra víki úr embætti eftir því hvað við á. Þá veltir maður fyrir sér: Hvað má og þarf að ganga á til að ráðherra segi af sér?

Það er ágætt að velta því upp því að hér hefur málið verið bendlað við dóma sem féllu á síðasta kjörtímabili. Það hefur ekkert með sakamál að gera. Hins vegar er ástæða til að velta því upp að í tíð fyrri ríkisstjórnar sætti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, þá sem þingmaður, rannsókn sérstaks saksóknara. Hann ákvað að víkja af þingi, þótti það tilhlýðilegt. Það eru augljóslega ekki alveg sömu viðmið hjá formanni Sjálfstæðisflokksins og öðrum þingmönnum hans eða ráðherrum. Hins vegar datt engum í hug að biðja núverandi mennta- og menningarmálaráðherra að víkja þegar dómur féll með Lánasjóði íslenskra námsmanna gegn íslenska ríkinu vegna ólöglegra breytinga á úthlutunarreglum enda var þar um stjórnsýsluatriði að ræða. Það er auðvitað stigsmunur á því hvort um sakamálarannsókn er að ræða eða stjórnsýslukæru. (Forseti hringir.) Ég bið menn að tala varlega (Forseti hringir.) ef þeir telja að það sé engin ástæða.