143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

verndartollar á landbúnaðarvörur.

[10:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Árið 2011 sendu Neytendasamtökin erindi til þáverandi landbúnaðarráðherra og hvöttu hann til að fella niður tolla á landbúnaðarvörum sem ekki væru framleiddar hér á landi. Óréttlátt væri að refsa neytendum fyrir að kaupa slíka vöru með ofurtolli. Svar barst tveimur árum síðar og var vísað til þess að til þess þyrfti að breyta tollalögum en að öðru leyti var ekki tekin afstaða til erindisins. Það kom svo sem ekkert á óvart enda hefur afstaða stjórnvalda ætíð verið sú að verndartollar séu af hinu góða og ríkið eigi beinlínis að hlutast til um það hvers konar landbúnaðarafurðir Íslendingar borða. Okkur neytendum stafi ógn af innfluttum vörum og þar er gjarnan vísað til matvælaöryggis.

Innfluttu landbúnaðarafurðirnar virðast þó fullgóðar ofan í okkur þegar innlendir framleiðendur flytja þær inn. Við höfum nú fengið staðfest að írskt smjör er gæðasmjör og stendur því íslenska ekkert að baki, annars hefði það væntanlega ekki verið notað í íslenska gæðaframleiðslu.

Ég hef undanfarinn áratug starfað á vettvangi þar sem innflutningstollar og landbúnaðarstefna út frá hagsmunum neytenda hefur verið á dagskrá. En nú finnst mér eins og þessi mál séu loksins að komast almennilega á dagskrá hjá þjóðinni og ég held að smjörmálið hafi kannski verið kornið sem fyllti mælinn. Mér finnst eins og neytendur sætti sig ekki lengur við núverandi ástand og krafan er að losað verði um núverandi hafta- og tollakerfi. (Gripið fram í.) Þessi krafa er orðin hávær.

Staðreyndin er nefnilega sú að margir vilja sökkva tönnunum í ost úr buffaló-, geita- og ærmjólk, svo ég vitni í skemmtilegt orðalag héðan úr þinginu, og það án þess að ríkið sé að skipta sér af því. Neytendur eiga að hafa val, þeir eiga helst að hafa mikið val og markaður þar sem vali neytenda er stýrt með tollum er ekki heilbrigður markaður.

Nú vil ég spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra sömu spurningar og forveri hans fékk í starfi fyrir þremur árum: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að tollar á landbúnaðarvörum sem ekki eru framleiddar hér á landi verði felldir niður? Væri það ekki eðlilegt og sanngjarnt fyrsta skref?