143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

verndartollar á landbúnaðarvörur.

[10:52]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Já, ég þakka fyrir svarið. Við verðum kannski seint sammála um þennan málaflokk. Það er allt í lagi.

Mig langar til að ítreka að eitt eru ríkisstyrkir og annað er tollvernd. Ég er ekki að tala um ríkisstyrkina. Það er pólitísk ákvörðun hvort við viljum styrkja landbúnað á Íslandi um 5 milljarða, 10 milljarða eða 20 milljarða. Það sem ég er að tala um er tollverndin en hér hafa verið við lýði ofurtollar. Ég man ekki betur en að þáverandi ráðherra hafi t.d. sett tolla á innflutta osta árið 2009 sem voru svo háir að innflytjendur hættu meira og minna að flytja inn osta. Það finnst mér vera aðför að neytendum svo að ég segi það hreint út.

Ég spyr því aftur og vil fá aðeins skýrara svar: Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að tollar af vörum sem ekki eru framleiddar á Íslandi, eins og staðgengisvara mjólkur, verði afnumdir? Ég er með eitt slíkt frumvarp sem er í ferli í þinginu.