143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

viðbrögð innanríkisráðherra við lögreglurannsókn.

[10:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur lagt fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um nokkur atriði í svokölluðu lekamáli um tilvist minnisblaðs og dreifingu þess, um önnur gögn sem til væru um þetta tiltekna mál, um meinta innanhússrannsókn á málinu, um rannsókn hins svokallaða rekstrarfélags Stjórnarráðsins og um afstöðu ráðherrans til óháðrar rannsóknar á málinu. Fyrirspurninni var útbýtt miðvikudaginn 29. janúar og skriflegt svar berst væntanlega í síðasta lagi um miðja næstu viku og við bíðum auðvitað eftir því.

Síðan hafa hins vegar orðið þau tíðindi, eins og hér kom fram í fyrri ræðu, að ríkissaksóknari hefur óskað eftir lögreglurannsókn í málinu, rannsókn sem beinist að ráðuneyti ráðherrans, að ráðherranum sjálfum og að helstu samstarfsmönnum hans, embættismönnum og pólitískum aðstoðarmönnum, og að undirstofnunum þeim sem hér gætu komið við sögu.

Rétt er að árétta að þetta er ekki eins og hver önnur kvörtun eða stjórnsýslukæra, sem er hluti af daglegu starfi ráðuneytis og ráðherra, heldur er þetta rannsókn sem ríkissaksóknari hefur óskað eftir vegna dreifingar persónuupplýsinga og ósannaðrar og óviðeigandi tengingar við sakamál. Þetta varðar þrjá einstaklinga, tvo hælisleitendur og einn íslenskan ríkisborgara að auki. Það er einstakt á lýðveldistíma a.m.k. að lögreglurannsóknin beinist að skrifstofu ráðherrans sem fer með lögreglumálin, að dómsmálaráðuneytinu. Lögreglan er þess vegna að rannsaka yfirmann sinn og nánustu samstarfsmenn hans.

Ég fer fram á að hæstv. innanríkisráðherra geri hér grein fyrir því hvernig ráðherrann hyggst bregðast við þessari stöðu, sem á sér nánast ekki fordæmi, í þágu rannsóknarinnar, í þágu siðlegrar stjórnsýslu, í þágu heiðarlegra stjórnmála, í þágu sjálfs sín sem ráðherra, stjórnmálamanns og persónu.