143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

aðkoma einkaaðila að Leifsstöð.

[11:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það sem ráðherra á við er að við erum að varpa fram, setja á flot hugmynd sem við teljum mikilvægt að ræða frekar. Við erum ekki búin í ráðuneytinu að útfæra nákvæmlega hvernig við sjáum það fyrir okkur. Hins vegar er alveg ljóst, og fyrrverandi innanríkisráðherra þekkir það vel, að varðandi meiri háttar framkvæmdir, hvort sem það er í vegaframkvæmdum, framkvæmdum á flugvöllum eða við hafnir, er ríkissjóður í þeirri stöðu að við ráðum ekki við að hraða þeim framkvæmdum eða koma þeim á góðan og öruggan stað nema við leitum nýrra leiða. Við erum fyrst og síðast að ávarpa nýjar leiðir og ég geri mér alveg grein fyrir því að hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. ráðherra, er ekki sammála mér um þær leiðir. Ég vil skoða blandaða leið, aðkomu einkaaðila, lífeyrissjóða, fjárfesta og annarra sem kunna að hafa áhuga á því að koma inn í uppbyggingu innviða ásamt ríkisvaldinu. Þetta eru svokölluð PPP-verkefni, „Public Private Partnership“, sem hafa verið reynd víða í löndum í kringum okkur. Það eru fá lönd sem ekki hafa farið þá leið. Það eru leiðir sem ég vil skoða.

Hv. þingmaður hefur meðal annars haldið því fram að ég vilji selja Leifsstöð. Það er enginn að fara að selja Leifsstöð. Hv. þingmaður getur sofið alveg rólegur yfir því. Við erum að skoða þær framkvæmdir sem þurfa að fara í gang á næstu árum og eru framkvæmdir upp á 15–20 milljarða við Keflavíkurflugvöll til að tryggja að við getum annað þeirri eftirspurn sem er eftir aðkomu og aðgengi þar. Við erum að skoða hvort við getum í samstarfi við þá aðila, eins og ég segi, komið og hraðað þeim framkvæmdum. Sú vinna er að hefjast í innanríkisráðuneytinu og mun verða farið yfir málið undir forustu Helgu Valfells. Tíminn mun að leiða í ljós hvernig það vinnst en ég get ekki svarað hv. þingmanni núna hvað nákvæmlega verður gert. Það verður skoðað hvort við getum fengið fjármagn frá öðrum en hinu opinbera til að koma inn í framtíðaruppbyggingu að því er varðar Keflavíkurflugvöll.