143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

orð innanríkisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Vegna þeirra orða hæstv. innanríkisráðherra áðan að sá aumingjans varaþingmaður sem nú stendur í þessum stól hafi nánast komið inn á þingið í þeim eina tilgangi að atyrða ráðherrann og þvælast í þessu leiðindamáli sem hann er lentur í, þá bið ég forseta að staðfesta mitt minni um það að eitthvað fleira hefur nú verið gert. Varaþingmaðurinn hefur lagt fram fyrirspurn um hvalabjór, um póstverslun, um eftirlit í heilbrigðisstofnunum og er meðflutningsmaður á máli um léttlestir. Hann hefur rætt um lekamálið vissulega, en hann hefur líka rætt um hvalamjöl, um ferðamannastaði, um skipulagsmál í Reykjavík og hyggst taka á eftir þátt í umræðu um landvörslu.

Ég spyr forseta: Er þetta rangminni mitt, er mig að dreyma þetta, eða er það þannig að ég sé hingað kominn eingöngu til þess að sinna vissulega hátíðlegri og virðulegri eftirlitsskyldu þingmanns með athöfnum ráðherra og með þeim málum sem þeir flækja sig í?