143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þessa umræðu upp á þinginu, umræðu um Farice-strenginn sem gegnir afar mikilvægu hlutverk fyrir íslenskt samfélag. Það er ekkert öðruvísi en svo að ef umferð um þennan streng mundi lokast lægju niðri bæði símasamskipti og netsamskipti við umheiminn.

Þetta félag rekur tvo sæstrengi frá Íslandi, Farice- og Danice-strengina, en þeir eru þessar lífæðar fjarskipta. Farice var lagður 2003, tekinn í notkun ári síðar. Í fjarskiptaáætlun 2005–2010 var gerð sú lágmarkskrafa að ávallt væru tveir sæstrengir tengdir við landið. Því var farið út í miklar fjárfestingar á árinu 2008 við lagningu á nýjum streng, Danice. Var þátttaka ríkissjóðs í verkefninu liður í því að tryggja öryggi fjarskipta Íslands en að því komu í upphafi einnig færeysk stjórnvöld, auk símafélaga í báðum löndum. Síðar bættust þrjú íslensk orkufyrirtæki við í hóp hluthafa.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikið allar efnahagslegar forsendur breyttust árið 2008, eins og hv. þingmaður vék að, en samningar um uppbyggingu í gagnarversiðnaði hafa ekki gengið eftir og langtímafjármögnun reyndist á þeim tíma mjög erfið. Viðræður höfðu farið fram bæði við Kaupþing og Norræna fjárfestingarbankann um endanlega fjármögnun en við hrunið sigldu þær viðræður í strand. Á fyrri hluta ársins 2008 veitti Landsvirkjun félaginu brúarlán ásamt Kaupþingi á meðan leitað var allra leiða til að fjármagna verkefnið á upphaflegum forsendum.

Á endanum var leitað heimildar Alþingis fyrir ríkisábyrgð sem veitti hana í fjárlögum ársins 2009. Á grundvelli hennar var í apríl 2009 tekin ákvörðun um að bjóða út 5 milljarða kr. skuldabréfaflokk í íslenskum krónum til 25 ára á kjörum sem við í dag mundum telja óhagstæð. Á seinni hluta árs 2009 varð ljóst að félagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum og í fjáraukalögum ársins 2010 veitti Alþingi fjármálaráðherra heimild til að auka hlut ríkissjóðs í Farice og taka ásamt öðrum eigendum félagsins þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu.

Allt hlutafé félagsins var fært niður sem nam uppsöfnuðu tapi félagsins. Ríkissjóður og Landsvirkjun juku hlut sinn með innborgun á nýju hlutafé og var samið við aðra kröfuhafa um að í stað þess að krafa Ríkisábyrgðasjóðs um ríkisábyrgðagjald yrði afskrifuð til jafns við aðrar almennar kröfur yrði henni breytt í hlutafé, svo að nokkrir liðir endurskipulagningarinnar séu hér nefndir. Þá féllust kröfuhafar enn fremur á að greiðslur sem ríkissjóður mundi inna af hendi á kyrrstöðutímabilinu vegna lána með ríkisábyrgð yrðu ekki færðar meðal almennra krafna heldur yrði þeim skuldajafnað á móti greiðslu aukningar hlutafjár.

Í lok árs 2011 var enn ljóst að áætlanir gengu ekki eftir. Hv. þingmaður vék að því að ESA hefur haft skoðun á þessu máli og hvernig það leiddi til þess að gerður var þjónustusamningur. Hann var gerður á grundvelli almannahagsmuna um örugga fjarskiptatengingu við umheiminn. Farice var þá í þeirri stöðu að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Til að gera langa sögu stutta er eignarhald á félaginu þannig núna að ríkissjóður fer með rúm 30%, Landsvirkjun á tæp 30% og Arion banki 40%. Ríkissjóður hefur samtals lagt 14,3 milljónir evra í nýtt hlutafé, þ.e. 2,23 milljarða, og 4,8 milljónir evra, þ.e. 749 milljónir, í gegnum þjónustusamning auk þess sem kröfu Ríkisábyrgðasjóðs var breytt í hlutafé sem nemur 2,3 milljónum evra, þ.e. 359 millj. kr.

Komið hefur fjármagn frá meðeigendum og í gildi hefur verið eigendaábyrgð. Landsvirkjun hefur lagt fram 735 milljónir í nýtt hlutafé til viðbótar við eldra hlutafé upp á 1,1 milljarð kr. Þá veitti Landsvirkjun félaginu brúarlán upp á 2,34 milljarða á árinu 2008 sem breytt var í hlutafé. Arion banki veitti félaginu slík brúarlán á árinu 2008 sem breytt var í hlutafé, samtals 5,1 milljarð kr.

Áfram er lögð mikil áhersla á að koma stoðum undir rekstur félagsins þannig að ekki sé þörf fyrir framlag í gegnum þjónustusamning en samhliða þarf að sjálfsögðu að koma í veg fyrir að skuldbindingar falli á ríkissjóð í gegnum ríkisábyrgðir. Til að félagið geti orðið arðbært til framtíðar þarf uppbyggingu á öflugum gagnaversiðnaði eða öðrum iðnaði sem mundi nýta strenginn á Íslandi og að því er nú unnið af hálfu félagsins. Strengurinn hefur gríðarlega mikla afkastagetu og einungis takmarkað rými er nýtt í dag. Ef til þess kæmi að nýr strengur kæmi til landsins er ljóst að samkeppnin mundi enn aukast, en það verður þá fyrir félagið að glíma við það þegar að því kemur.

Það sem við verðum að vona er að okkur auðnist að auka gagnamagnið um strenginn og þær breytingar sem eru að verða í tækniheiminum gefa ákveðna von um það. Betur má þó ef duga skal til að ríkið verði ekki með mikla byrði af þessu (Forseti hringir.) eignarhaldi í framtíðinni.