143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið skýrt ágætlega í þessari umræðu við hvaða vanda er að eiga og hver rót hans er. Hún er auðvitað sú að menn tóku þá ákvörðun á síðari hluta árs 2007 að ráðast í lagningu nýs strengs og mikla fjárfestingu. Þeir sem gagnrýna það, það er auðvelt að vera vitur eftir á, ættu aðeins að velta því fyrir sér hvernig fjarskiptaástand hefði verið á Íslandi ef við hefðum ekki gert það. Það var vaxandi óöryggi í þessum lífsnauðsynlegu samgöngum fyrir landið og bilanir. Það er auðvitað líka ljóst að við vorum með þessu ekki einungis að tryggja betur öryggi og gæði netsambanda og símasambanda við útlönd heldur líka að skapa grunn fyrir það að hér gæti þróast upp sá iðnaður sem menn bundu miklar vonir við og gera enn. Hann hefur þrátt fyrir allt komist aðeins á legg en uppbyggingin verið hægari og þar með flutningarnir og tekjurnar minni en menn gerðu sér vonir um, enda hefur ýmislegt gengið á á Íslandi frá því í október 2007 eins og kunnugt er og ætti ekki að þurfa að rifja upp fyrir málshefjanda eða öðrum.

Ég tel að ríkið, Landsvirkjun og þá Arion banki, þ.e. stærstu aðilarnir sem eftir stóðu, hafi sýnt að menn hafa trú á þessu verkefni og vilji tryggja að samböndin séu til staðar og séu góð, enda var ekkert annað í boði fyrir Ísland. Það var ekkert annað í boði. Eða hvað hefði hv. þm. Vigdís Hauksdóttir viljað að við hefðum gert? Áttum við að fara í morsið aftur? Og flöskuskeyti?

Það er ekki hægt að ræða þessi mál í einhverjum hneykslunartón öðruvísi en að horfast í augu við þær aðstæður sem hér komu upp og vinna varð úr. Þetta er ekkert skemmtilegt, það er ekkert gaman að fá svona hrunvandamál í hausinn en menn verða ekkert meiri menn af því að hneykslast og óskapast og finna þessu allt til foráttu. Það var ekki um annað að ræða en að tryggja áfram sambönd Íslands við umheiminn og það er það ekki enn. Þó að hér kunni að koma einhverjir (Forseti hringir.) stórir strengir einhvern tímann síðar breytir það ekki þeim aðstæðum sem við höfum verið í undanfarin ár og erum enn.