143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Þegar sú ákvörðun var tekin að leggja Danice árið 2007 studdi landið sig við einn streng, Farice, sem var góður fyrir sitt leyti og hafði til vara Cantat-strenginn gamla sem hafði verið um árabil helsta tenging okkar við önnur lönd. Það sem lá kannski fyrst og fremst til grundvallar ákvörðuninni var að til að tryggja gagnaflutninga til og frá landinu þarf svokallaða hringtengingu, þ.e. þegar ein leið rofnar þarf gagnamagnið að geta farið aðra leið. Þess vegna var þetta nauðsynlegt.

Lagt var í mjög dýran streng og það held ég að hafi verið skynsamlegt vegna þess að við erum að tala um fjárfestingar í samgöngumannvirkjum nútímans. Geta samfélagsins til að laða að okkur erlend fyrirtæki, ekki bara gagnaver heldur margs konar fyrirtæki sem vinna og styðja sig við margvíslegan flutning gagna, ræðst algerlega af getu landsins til að flytja gögn til og frá landinu.

Það er alveg nákvæmlega eins með fyrirtæki og fólk í þessum efnum, þegar fólk flytur eitthvert og ætlar að koma sér upp heimili eða vinnuaðstöðu veltir það fyrir sér slíkum tengingum, hvort það hafi möguleika á því að vinna heima hjá sér. Fjölmargir geta gert það, það er nákvæmlega sama spurning sem blasir við, og á ekki bara við um fyrirtæki eins og gagnaver. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa upp á að bjóða góðar og öflugar tengingar til og frá landinu og samhliða því er nauðsynlegt fyrir okkur að vera með áætlanir um að laða til okkar fyrirtæki, ekki bara gagnaver heldur margs konar tæknifyrirtæki, hugbúnaðarfyrirtæki, sem horfa til þessara þátta þegar þau setja niður staðsetningu sína.