143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka upp þetta mál. Mér hafa fundist umræðurnar ágætar og ég ætla að taka undir að minnsta kosti aðra tillögu sem hér kom fram um að Farice yrði, ef það væri möguleiki, tekinn út úr fjarskiptasjóði. Við ræddum það heilmikið við gerð fjárlaga að hann væri að éta upp alla þá fjármuni sem þar væru inni. Hvort hægt er að koma honum fyrir annars staðar veit ég ekki en það er kannski eitthvað sem vert er að skoða.

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt er gott og blessað að fara yfir alla þessa hluti en það er samt ekki hægt að horfa fram hjá því að staðan vegna þessa máls er til komin út af hruninu. Við þurfum bara að horfast í augu við það að staðan, þegar við þurftum að gera þennan samning, var slík að ekki voru til miklir fjármunir og ekki kannski heldur mikil tiltrú, en við þurftum að tryggja þetta verkefni.

Hér var aðeins farið ofan í nokkra þætti þessa reksturs og eins og kom fram hefur þetta verið rætt í fjárlaganefnd og þá er sagt að sú staða sé ekki uppi nú að ríkissjóður þurfi að veita aukið fé til félagsins, t.d. af fjáraukalögum. Það kom að minnsta kosti fram á þeim fundi sem við vorum á um daginn.

Það sem vakti þó athygli mína var sá mikli kostnaður sem fer í þjónustuskipið sem þarf að halda úti. Hann er tæpar 4 milljónir evra af tæpum 5 milljónum. Það hlýst af því að varahlutir í strenginn sem verða að vera til þess að hægt sé að bregðast við eru geymdir bæði í landi og um borð. Við megum líka teljast ansi heppin með það að þessi strengur hefur aldrei klikkað og það er mikilsvert meðan aðrir sambærilegir strengir (Forseti hringir.) sem að minnsta kosti var vísað í á okkar fundi hafa bilað.