143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

málefni Farice.

[11:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hv. þm. Kristján Möller hittir naglann á höfuðið þegar hann ber saman vegaframkvæmdir og aðgengi að internetinu og öryggi í þessum sæstrengjum. Það má segja að sæstrengirnir séu einhvers konar lífæð.

Það hefur verið þannig að aðgengi að internetinu hefur verið skilgreint sem grundvallarmannréttindi í fjöldamörgum löndum og átti að vera ein af aukagreinunum í nýrri stjórnarskrá. Það er mjög mikilvægt að horfa til þess að til þess að Farice hætti að vera blæðandi sár, eins og einn hv. þingmaður kallaði þennan rekstur, þurfum við að tryggja lagalegan grundvöll hérlendis. Við þurfum að tryggja lagalegan grundvöll til að fyrirtæki vilji koma og reka starfsemi sína hér og nýta sér þjónustu Farice. Alveg eins og hv. þm. Róbert Marshall benti á eru það ekki einungis gagnaversfyrirtæki. Gagnaversfyrirtæki eru reyndar mjög ólík í eðli sínu og ef við mundum fara í samkeppni við lönd eins og Finnland varðandi aðbúnað fyrir fyrirtæki eins og þessi stóru samskiptafyrirtæki værum við á nokkuð grænni grein af því að þá gætum við orðið einhvers konar sílikondalur norðursins. Það væri ekki amaleg framtíðarsýn.