143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfsagt er að reyna að búa til sátt um öll mál en við vitum það af umræðum um málið að heill stjórnmálaflokkur leggst alfarið gegn þessu. Í fyrri umræðu kom það mjög skýrt fram að þannig eru línurnar skiptar. En það skiptir nú ekki meginmáli vegna þess að menn mega vera annarrar stjórnmálaafstöðu en ég. Það er bara partur af lýðræðinu og það er fínt.

En mér finnst sem sagt að í leiðsögn nefndarinnar skorti tvennt: Í fyrsta lagi afgerandi afstöðu. Þegar nefndin er búin að vinna svona mál sem hæstv. ráðherra biður um að verði unnið hratt þá finnst mér það ekki vera málinu til framdráttar að fá afstöðu sem er hálfgert „me-he“. (Gripið fram í.) Það er bara þannig.

Það kom skýrt fram í umræðunum á sínum tíma að menn færðu rök fyrir því að það væri hugsanlegt að ef menn ætluðu að ráðast í svona þá þyrfti niðurstaða að liggja fljótt fyrir. Ástæðan er sú að aukið framboð er að verða á endurnýjanlegri orku í Evrópu. Við vitum það hins vegar, bæði við sem vorum í fyrri ríkisstjórn og líka núverandi ríkisstjórn, að fyrir liggur vilji af hálfu hugsanlegra kaupenda til að tryggja samning á verði sem getur borgað upp þennan streng á 20 árum, sem er afskriftartími, en það er ekki víst að það gildi mjög lengi. Ástæðan er, eins og ég sagði, sú að öðruvísi tækni er að koma fram í Evrópu sem leiðir til þess að það er að koma fram ódýr endurnýjanleg orka. Ef þetta er tækifæri þá verðum við að komast hratt að niðurstöðu. Þá leiðbeiningu finnst mér skorta í þetta.

Í þessu nefndaráliti eru engar vangaveltur um það hvaða áhrif aukið framlag á endurnýjanlegri orku í Evrópu kann að hafa á þetta. Það sem liggur fyrir í þessu nefndaráliti að mínu áliti er einfaldlega gamalkunn leið, sem ég þekki auðvitað vel úr starfi mínu hér örfá ár, til að svæfa málið.