143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:28]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þessa orðræðu, þetta er mjög áhugavert og spennandi eins og ég er búinn að segja áður. Ég er líka sammála honum í því að það er til mikil orka sem við þurfum að nýta með hófsemd og í sátt við náttúruna eins og hægt er. Þrátt fyrir allt er ég náttúrusinni, ég er fagurkeri eins og hv. þingmaður (ÖS: Eins og allir rithöfundar.) og eins og allir rithöfundar.

Ég hef lagt áherslu á það að við nýtum þá orku sem núna er til til þess að koma þeim atvinnutækifærum sem við eigum í gang. Þar erum við sammála, og það er í seinasta lagi að við drífum í því á þessu ári að koma þeim í gang, vinna að því af miklum krafti. Til þess að geta skapað meiri framleiðslu í landinu þurfum við að fara í fleiri virkjanir, það er bara þannig. Neðri hluti Þjórsár bíður og það er svakalega mikið mál að það fari í gang. Við þurfum, og það er okkar verkefni hér í þessum sal, að flytja fólkið okkar, iðnaðarmennina sem búa í Noregi og starfa í Evrópu, heim til þess að skapa verðmæti fyrir samfélagið hér. Um það snýst málið. Við þurfum að ná að koma þessu öllu saman í gang og horfa síðan til framtíðar og finna leiðirnar til þess að virkja. Ég er svo sem ekki hræddur við framtíðina þrátt fyrir að jöklarnir minnki, sem er náttúrlega stórskaði, ekki bara fyrir augað heldur fyrir náttúruna. En því mun fylgja aukið rennsli í ám þannig að vatnsmagnið verður ekki minna í framtíðinni, held ég. Það mun rigna yfir réttláta og rangláta í framtíðinni á Íslandi eins og hingað til, kannski bara í meira mæli en áður. Þannig er nú staðan.

En enn og aftur, ég ætla að þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst ánægjulegt að fá að taka þátt í henni. Ég held að það sé ekki langt bil á milli okkar. Þetta er kannski aðeins spurning um gönguhraðann eða hlaupið. Við skulum skoða þetta á næstu dögum og vikum með hæstv. ráðherra, hvernig hún vill taka á því, og ég mun fylgja henni í því eins og við öll greinilega.