143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég á ekki sæti í atvinnuveganefnd. Ég hef lýst hér þrenns konar ágöllum á þessu nefndaráliti sem ég hef fært rök fyrir. Þar sem ég á ekki sæti í nefndinni vona ég að hæstv. iðnaðarráðherra taki það ekki óstinnt upp þó að ég sendi henni bréf þar sem ég vek sérstaklega eftirtekt á þeim þremur atriðum sem ég tel að þurfi að koma til álita þegar áfram verður unnið að málinu af hennar hálfu.

Frú forseti. Ég ætlaði að hætta mér út á ystu nöf þingskapa með því að vísa hér til frammíkalls sem hæstv. ráðherra hafði uppi fyrr í umræðunni en ég þarf þess ekki. Hæstv. ráðherra endurtók það sem hún kallaði fram í. Hún leggur sérstaka áherslu á að ekki þurfi að hraða þessu máli. Það er algjörlega með ólíkindum að einn einstakur ráðherra skuli tala á þann veg um mál sem henni er falið. Hún segir beinlínis að engin ástæða sé til að hraða málinu. Hér var á sínum tíma ráðherra sem hrósaði sér af því að vinna á hraða snigilsins en ég taldi ekki að það væru eiginleikar sem þessi tiltekni hæstv. ráðherra, sem hefur nú verið heldur skjót í förum, vildi taka sér til eftirdæmis.

Ég held því fram að hæstv. iðnaðarráðherra skilji ekki þær breytingar sem eru að verða í umhverfi orkuframleiðslu í Evrópu ef hún telur að Íslendingar hafi mikinn tíma til að velta því fyrir sér hvernig eigi að komast að niðurstöðu í þessu máli. Ég harma það að hæstv. ráðherra virðist ekki hafa meiri áhuga á málinu en svo að hún lýsir því sérstaklega yfir að ekki þurfi að hraða því.

Hvað veldur því, frú forseti? Við áttum hreinskilna umræðu, ég og hv. þm. Ásmundur Friðriksson, hér áðan og ræddum það úr þessum stóli hvort sæstrengur mundi hafa áhrif á mögulega stóriðju á Suðurnesjum. Hann og ég vorum þeirrar skoðunar að svo væri ekki. En ég óttast að það sé álverið í Helguvík sem sé að þvælast fyrir hæstv. iðnaðarráðherra í þessum málum.