143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mér það til tekna ef ráðherra sem hrósar sér af því að vilja ekki vinna hratt að þessu máli telur sömuleiðis að ég valdi henni vonbrigðum. Það er alveg klárt að ég hef allt aðra skoðun á hraða málsins en hún. Það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að vinna málið á vandaðan hátt en vinna það hratt. Það sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra og er í samræmi við álit nefndarinnar, sem ég hef sagt að mér finnst hálfgert „me-he“ hvað afstöðu varðar, að mjög einbeittur vilji virðist vera til þess að fara sér hægt í málinu.

Ég hef fært rök að því í dag og í fyrri umræðum um málið að breytingar eru að verða á umhverfi orkuframleiðslu í Evrópu, þær sömu og við höfum séð í Bandaríkjunum sem hafa gjörbreytt bæði efnahagslegri stöðu Bandaríkjanna og stöðu orkuframleiðslu þar. Það er að gerast í Evrópu núna sem fór af stað í Bandaríkjunum fyrir sjö árum og er undirstaðan að hagvexti Bandaríkjanna í dag. Þetta getur gjörbreytt möguleikum okkar á því að koma orku af þessu tagi í verð í Evrópu. Ástæðan er sú að í Evrópu er mikil eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku og menn eru reiðubúnir til að greiða háar premíur; Evrópusambandið, líka einstök lönd og eins í Þýskalandi, einstök fylki innan þess. Þetta ástand er ekki líklegt til að vara mjög lengi. Um leið og menn fara að koma fram með mikið magn af hinu óhefðbundna gasi með nýjum aðferðum, gas er jú samkvæmt Evrópusambandinu flokkað sem endurnýjanleg orka, þá breytast þessir möguleikar. Það sem ég hef verið að halda fram er að við höfum kannski glugga í nokkur ár til að gera samninga af því tagi sem gerir svona verkefni mögulegt.

Ég er sammála hæstv. ráðherra að mörg álitaefni eru í þessum málum, við þurfum að skoða þau öll vandlega, sérstaklega hvað varðar hag heimilanna, en ég hafna því sem hæstv. ráðherra segir (Forseti hringir.) að við eigum að gera það á hraða snigilsins.