143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[13:46]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er brýn. Þetta er alvarleg staða sem upp er komin. Því miður er frammistaða ríkisstjórnarinnar í náttúru- og umhverfisvernd þannig að veruleg hætta er á því í mínum huga að af hljótist varanlegur og óafturkræfur skaði á náttúru Íslands og orðspori okkar.

Því miður er það þannig á mörgum sviðum að hlutirnir ganga of hægt. Þegar kemur að náttúrupassanum, sem hefði getað verið mikilvægur tekjuauki fyrir ríkissjóð til að gefa almennilega í í þessum efnum, hefur það tekið of langan tíma. Því miður er það þannig, þegar kemur að virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna, að þar hafa menn horfið frá áformum sem hefðu getað tryggt 1,5 milljarða í ríkissjóð til að taka meðal annars á þessum málum.

Þess vegna dugar það ekki sem rökstuðningur frá hæstv. ráðherra, þegar hann kemur hérna og talar í þessu máli, að menn hafi þurft að hagræða og menn hafi horft framan í hagræðingu á síðustu árum. Það stenst einfaldlega ekki skoðun vegna þess að ef menn á annað borð viðurkenna vandann, sem ég veit að hæstv. ráðherra gerir og gerði hér í ræðu sinni, verður auðvitað að bregðast við honum og finna til þess pening. Þá geta menn ekki á sama tíma afsalað sér tekjum til að taka á þeim vanda sem blasir við.

Þess vegna er það óhjákvæmilegt að sú spurning vakni hvort ríkisstjórnin sé með framgöngu sinni að kalla yfir okkur óafturkræfan skaða á náttúru og orðspori Íslands í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Það er mjög alvarlegt.