143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[13:48]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem er þörf og brýn og vissulega eru mörg sjónarmið uppi. Það er rétt að það var forgangsraðað hér við gerð fjárlaga síðastliðið haust, fyrir áramótin, og það var nauðsynlegt. Það er mjög mikilvægt að forgangsraða en við verðum líka að horfast í augu við breytta tíma í þessu öllu saman, hvernig ferðaþjónustan hefur breyst. Ferðamönnum fjölgar eins og hér er rætt um og því er mjög mikilvægt að við búum okkur undir hvernig við tökum á því. Hvort rétta lausnin sé að margfalda fjölda landvarða er ég ekki alveg viss um. Það er nokkuð ljóst að þeir landverðir sem hafa starfað núna hafa ekki náð að taka á móti öllum ferðamönnum sem koma og sinna því hlutverki sem er listað upp fyrir landverðina. Það kerfi hefur ekki verið fullkomið. Inn á mörg þessara svæða eru komnir ferðaþjónustuaðilar, ferðaklúbbar farnir að fara meira um með sitt fólk og svo vorum við líka að auka fjármagn til löggæslunnar á landsbyggðinni sem sinnir mörgu af því sem landverðir eiga að gera og getur vonandi sinnt betur núna.

Einnig er Landsbjörg farin að fara um þessi svæði og veita hálendiseftirlit til dæmis og er mikið á ferðinni og fær fjármagn fyrir því hjá Umhverfisstofnun og fleirum. Í nýlegum tillögum um aukna löggæslu voru meðal annars settir meiri fjármunir til að auka hálendiseftirlit lögreglunnar. Er hægt að koma þessum málum fyrir á einhvern annan hátt til þess að ná markmiðunum betur? Ég held að það sé nokkuð sem við verðum að skoða.